133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

111. mál
[14:03]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar menn velta fyrir sér lausn á þeim vanda sem þarna er verða menn auðvitað að hafa í huga einhverja mælikvarða á hvað er ásættanlegur biðtími og hvenær stjórnvöld eiga að leggja út í kostnað til að greiða fyrir umferð. Í fyrsta lagi þarf að vera einhver ávinningur af framkvæmdinni, annars eru menn að setja mikla peninga fyrir lítinn ávinning. Í öðru lagi þarf líka að hafa í huga að jafnvel þó að menn leysi úr vanda við þessi gatnamót flyst vandinn til á önnur gatnamót. Vandinn er í heildinni sá að verið er að skipuleggja og byggja upp með röngum hætti á höfuðborgarsvæðinu, stefna allt of mörgum til starfa og náms á einn stað miðað við þær umferðaræðar sem fyrir eru.