133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

148. mál
[14:39]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil nefna í þessu sambandi. Í fyrsta lagi vek ég athygli á þeirri gríðarlegu uppbyggingu hjúkrunarrýma sem er fram undan á næstu árum. Það liggur fyrir að það er verið að byggja 200 ný hjúkrunarrými í Reykjavík, á svokallaðri Lýsislóð og við Suðurlandsbraut, og nýlega tilkynnti hæstv. heilbrigðisráðherra um 174 ný hjúkrunarrými sem byggð yrðu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar og á Ísafirði og Selfossi.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að 16 einstaklingar byggju í fjölbýli í dvalarrýmum og 845 í hjúkrunarrýmum. Ég tel að þetta sé verkefni framtíðarinnar. Kröfurnar eru orðnar þannig í dag að fólk vill yfirleitt búa eitt eða a.m.k. ekki með óskyldu fólki, eða ótengdu.