133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

heilsugæsla í Grafarholti.

322. mál
[14:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur byggst upp nýtt hverfi í Reykjavík og þá er ég að tala um Grafarholtshverfið þar sem nú búa rétt tæplega 5.000 manns.

Grafarholt er eins og eitt bæjarfélag, þar býr ungt og kraftmikið fólk og samhentur hópur og þar er mikið börnum. Eitt það mikilvægasta í hverjum bæ er öflug heilbrigðisþjónusta og góð heilsugæsla og aðgengi að henni.

Samkvæmt skipulagi heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er heilsugæslan í Árbæ hverfisstöð sem ætlað er að þjóna íbúum Árbæjar, Seláss, Ártúnsholts og Grafarholts. Það er í sjálfu sér gott og blessað en ég tel að þessi skipan mála sé ófullnægjandi til framtíðar.

Við sem búum í Grafarholti viljum fá okkar eigin heilsugæslustöð og ekki hvað síst í ljósi þess að fyrirhuguð er mikil uppbygging í hlíðum Úlfarsfells en það hverfi mun koma til með að heyra undir Grafarholtssókn og mynda eitt samfélag með Grafarholti.

Það var stefna þáverandi meiri hluta í borgarstjórn að troða Grafarholtinu sífellt undir Árbæinn og ég rek það nú einkum til eins borgarfulltrúa Samfylkingarinnar sem þar var alinn upp. Þetta er þvert á vilja íbúa í Grafarholti sem vilja auðvitað fá þjónustu í sínu samfélagi. Ég treysti mér til þess að fullyrða að til sé laust húsnæði undir heilsugæslustöð í Grafarholti.

Ég hef því lagt fram fyrirspurn á þingskjali 345 til hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem ég spyr, hver séu áform ráðherra um framtíðarskipulag heilsugæslu í Grafarholti í Reykjavík.