133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

heilsugæsla í Grafarholti.

322. mál
[14:57]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi þjónustuna fyrir þá sem búa í Grafarholti þá er alveg ljóst að á næstunni verður þeim sinnt áfram í því formi sem verið hefur í Árbæ, aðallega. Það sem er í mestum forgangi hjá okkur núna er að bæta aðstöðu heilsugæslunnar í Árbæ. Það hefur verið skoðað um nokkurt skeið að bæta aðstöðuna þar. Íbúum á svæðinu hefur stórfjölgað á seinni árum, m.a. í Grafarholti og Norðlingaholti og smæð stöðvarinnar þar er farin að valda vandræðum. Því þarf að stækka þá stöð og það er fremst í okkar forgangi. Eins og kom fram áðan munum við auglýsa eftir húsnæði um miðjan þennan mánuð. Miðað við áætlanir okkar ætti stöðin að geta flutt í það húsnæði í ársbyrjun 2008. Að sjálfsögðu verður staðið eðlilega að öllu með þær áætlanir hvað varðar fjármagn.

Spurt var hve margir væru án heilsugæslulæknis á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki með þá tölu á hraðbergi en það er ekki há tala miðað við íbúafjölda á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er ljóst að bæta þarf við læknum á nokkrum stöðvum til að geta þjónustað fleiri.

Einnig var spurt hvort sú sem hér stendur telji eðlilegt að hafa heilsugæslu í verslunarmiðstöðvum, í slíku húsnæði. Ég tel að það geti verið ágætt að hafa heilsugæslu í verslunarhúsnæði og ég sé ekkert að því. Aðalatriðið er að húsnæðið sé gott og að starfsemin sem þar fer fram sé öflug. Ég tel að við höfum staðið mjög myndarlega að uppbyggingu heilsugæslunnar á Íslandi hvað varðar húsnæði. Gestir sem koma hingað til lands telja sumir að við leggjum jafnvel of mikið í húsnæðið sjálft, að við höfum verið frekar brött þegar við höfum verið að byggja heilsugæslustöðvar. Þær eru víða ekki eins vel úr garði gerðar erlendis og hér.

Ég tel að húsnæði í tengslum við verslunarmiðstöð geti alveg gengið. Verið er að taka í notkun húsnæði í Mjóddinni sem mun hýsa starf sem fer fram á vegum heilsugæslunnar. Það húsnæði er mjög glæsilegt, starfsfólkið getur vitnað um að húsnæðið er mjög glæsilegt og að mörgu leyti betra en húsnæðið sem stöðin var í áður eða fyrir þá starfsemi sem þar mun fara fram. Ég tel því að það geti vel farið saman að heilsugæslustarfsemi sé í húsnæði sem er tengt við verslunarmiðstöð.