133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

rannsóknir á sandsíli.

201. mál
[15:19]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um helstu niðurstöður sandsílisrannsókna sem hafnar voru í sumar á vegum Hafrannsóknastofnunar og hefst nú fyrirlestur um sandsílistegundir.

Hér við land eru þrjár tegundir af sandsílisætt: sandsíli, marsíli og trönusíli. Sandsíli finnst aðeins á grunnu vatni við fjörur sunnan og suðvestan lands. Hámarkslengd þess er um 20 sentímetrar og er það mjög líkt marsíli að ytra útliti og þarf að telja hryggjarliði til að greina tegundir í sundur.

Marsíli er langalgengasta sandsílistegundin hér við land og lifir á 10 til 150 metra dýpi en er algengast á 30 til 70 metra dýpi og finnst allt í kringum landið þótt það sé algengast sunnan og suðvestan lands. Hámarkslengd þess er 25 sentímetrar.

Trönusílið finnst eins og sandsílið aðeins sunnan og suðvestan lands. Hámarkslengd þess er talsvert meiri en hinna tegundanna eða 38 sentímetrar og er ekki eins algengt. Eins og nafnið á ættinni segir til um lifa síli á sandbotni. Sú hefð hefur skapast að tala um sandsíli sem samheiti yfir sand- og marsíli. Rannsókn Hafrannsóknastofnunar sem hv. þingmaður vék að á síðastliðnu sumri beinist hins vegar að langmestu leyti að marsíli.

Farið var í sandsílisleiðangur á Gæfu VE11 þann 3. júlí og stóð hann til 18. júlí. Farið var á fjögur svæði, Breiðafjörð, Faxaflóa, Vestmannaeyjar að Vík og Ingólfshöfða. Þessi svæði voru valin með það í huga að síli eru háð ákveðinni gerð búsvæða eftir fyrsta sumar og eru fremur staðbundin. Ræður botngerð þar mest um en þau vilja vera á sandbotni með minna en 10% leir. Notað var flottroll sem togað var með frá yfirborði og niður á botn. Einnig var notaður plógur til að ná í síli af botni þegar síli var ekki aðgengilegt í troll.

Enn er unnið að úrvinnslu gagna svo sem aldursgreiningu afla en bráðabirgðaniðurstöður út frá lengd sílis eru þessar. Talsvert fannst af síli á öllum svæðum nema Vestmannaeyjum að Vík. Mjög lítið sást af smærra síli, 8–11 sentímetrum sem helst má vænta að sé árs síli. Þetta bendir til þess að hrygning hafi misfarist á síðasta ári og nýliðun þar með brugðist.

Nokkuð fannst af seiðum frá því í vor og voru þau stærstu farin að taka botn en lengdarbil seiða eru á bilinu 4–7 sentímetrar. Mest fannst af seiðum í Breiðafirði. Þar voru seiðaflekkir í yfirborði. Magn seiða er minna en fannst í sílisrannsóknum 1998 en ekki er þó hægt að segja til um nýliðun þessa árs með neinni vissu fyrr en á næsta ári. Hlutfall tveggja eða þriggja ára sílis á aflanum var hærra nú en árið 1998, þ.e. stærðin 12–18 sentímetrar, en svipað af fjögurra ára síli, 16 sentímetrar, og eldri.

Einkennandi var á öllum svæðum að síli var lítið á ferðinni meðan rannsóknin fór fram og hélt sig að mestu grafið í sandbotn. Í þeim togum sem gáfu síli fékkst yfirleitt aðeins lítið af því. Aðeins við Ingólfshöfða var vart við síli í verulegu magni í sjó. Þar fengust í einu togi tvö tonn af síli, aðallega tveggja ára og eldra, og var meðafli aðallega ýsa og lýsa.

Þéttleiki var talsverður í botni þar sem dregið var með plóg nema þá við Vestmannaeyjar að Vík. Ástandið þar virðist mun verra en á hinum svæðunum og þar fékkst lítið af síli.

Þar sem um er að ræða fyrsta leiðangur í vöktun á síli er erfitt að meta magn á rannsóknarsvæðinu og ekki fæst mælikvarði á það fyrr en eftir að svæðin hafa verið vöktuð í nokkur ár enda byggir aðferðin á að mæla hlutfallslegar breytingar. Færri tog gáfu sílisafla en í rannsókninni 1998 sem bendir til þess að sílið sé minna í sjó nú en þá. Það getur bent til þess að magn sílis sé minna og/eða sílið sé af einhverjum ástæðum öðrum minna á ferðinni nú en þá.

Ekki er hægt að benda á einn þátt sem skýrt gæti hvers vegna nýliðun hafi brugðist árið 2005 og ekki er hægt að segja til um áhrif þess á stofninn fyrr en vöktun hefur staðið í nokkur ár.

Tími frá hrygningu hjá marsíli til þess er seiði taka botn er langur. Hrygning hefst í lok október og stendur fram að áramótum. Eggin eru botnlæg og byrja að klekjast í mars eða apríl. Seiðin eru sviflæg í tvo til fjóra mánuði og myndbreyting verður við 35–55 millimetra lengd. Þetta stendur frá því í október og fram í júlí árið eftir.

Þar sem sjófuglar nýta aðallega eins árs síli, einkum á varptíma, er líklegt að nýliðunarbrestur í síli einstök ár geti haft mikil áhrif á sjófugla. Nýliðunarbrestir einstök ár hafa hins vegar minni áhrif á fisk þar sem hann nýtir sér fleiri aldurshópa sílis.