133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

rannsóknir á sandsíli.

201. mál
[15:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ekki er ég algerlega sammála síðasta hv. ræðumanni. Ég tel einmitt að veiðar mannsins hafi áhrif á sandsílastofninn. Það kom t.d. fram í ágætri ræðu hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að ýsumergð sé líkleg til að draga bæði úr afkomu sandsílis og höggva skörð í raðir sílanna, sem aftur er töluvert nauðsynleg fæða, t.d. fyrir fugl.

Ég er þeirra skoðunar að ein leið til að ráða bót á þessu og bjarga hag sjófuglanna væri að auka veiðar á ýsu. Þá kem ég að því sem ég hef áður nefnt úr þessum ræðustól. Ég er þeirra skoðunar, í ljósi þess að menn hafa ekki fullnýtt ýsukvótann og orðið hefur gríðarleg aukning á ýsu við Ísland og víðar, að hæstv. ráðherra eigi að berjast fyrir því að gefa ýsuveiðarnar frjálsar til reynslu í einhver ár. Er ekki hæstv. sjávarútvegsráðherra sammála mér um það?