133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnræði fiskvinnslu í landi og á sjó.

257. mál
[15:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það er nú svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið sjávarútveginum gríðarlegt tjón á umliðnum árum og áratugum. Þetta tjón hefur valdið því að landsbyggðin hefur farið mjög illa út úr þeim verkum flokksins. Þetta hefur verið einn höfuðatvinnuvegur landsbyggðarinnar, sjávarbyggðanna, og segja má að t.d. Vestfirðir hafi farið mjög illa út úr þeim óhæfuverkum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir.

Fyrst var þessi fiskveiðistjórn gerð í því augnamiði að vernda þorskstofninn. En allt kemur fyrir ekki, alltaf berast nýjar og nýjar slæmar fréttir af afkomu þorskstofnsins. Nú síðast fór haustrall Hafrannsóknastofnunar 6% niður og einhverra hluta vegna fékkst ekki að ræða þau ótíðindi hér á hinu háa Alþingi í fyrirspurnatíma þingsins á mánudaginn, en þetta var gert undir þeim formerkjum að verið væri að byggja upp stofninn. Með þeim forsendum var þetta kerfi sett á stofn.

Síðan hafa komið einhver hagræn rök en þau hafa bara alls ekki gengið eftir, frú forseti. Meðal annars hefur það sýnt sig að á síðustu tíu árum hefur runnið út úr atvinnugreininni a.m.k. sú upphæð sem svarar til tveggja Kárahnjúkastíflna, hvorki meira né minna. Þar að auki hefur verðmæti sjávarfangs sem flutt er til útlanda ekkert aukist á umliðnum árum og jafnvel minnkað.

Það sem ég ætla að ræða nú er að þeir sem ætla að berja sér leið inn í greinina eru nýliðar og þeir þurfa að búa við afar slæm samkeppnisskilyrði. Þeir vísuðu erindi til Samkeppnisstofnunar fyrir um sex árum og fengu þá úrskurð um að sjávarútvegsráðuneytið ætti að bæta stöðu þeirra. Úrskurður kom í löngu máli með ýmsum úrbótum sem lagt var til að sjávarútvegsráðuneytið ætti að fara í til að tryggja stöðu nýliða í greininni og einnig þeirra sem búa við það að verka fisk í landi miðað við þá sem verka fisk á sjó í frystiskipum. En staða þeirra er ójöfn og tekið er undir það í þeim úrskurði.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann hafi að einhverju leyti farið eftir þessum úrskurði eða áliti Samkeppnisstofnunar og hvaða gögn liggi fyrir í ráðuneytinu um að hann hafi gert það og hvort þingmönnum sé tryggður aðgangur að þeim gögnum.