133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[21:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra var heldur borubrattur og rogginn með sig og hann má alveg vera það. Það frumvarp sem hæstv. ráðherra mælti hérna fyrir er árangurinn af töluvert langri vinnu sem bæði hann og forveri hans, Árni Magnússon, lögðu á sig. Sú vinna var unnin í kjölfar töluverðra umræðna á hinu háa Alþingi um þetta mál.

Eins og hæstv. ráðherra gat um kostar það drjúgan skildinginn að ættleiða barn erlendis frá. Hæstv. ráðherra nefndi sem dæmi að það kostaði nánast 1,5 milljónir að ættleiða barn frá Kólumbíu. Það eru þess vegna drjúgar fjárfestingar sem menn leggja í hvað varðar hamingju og heill þegar þeir gera það. En ég get nú sagt af eigin reynslu að ekki er hægt að finna nokkurt hlutabréf í öllum heiminum sem hægt er að ávaxta jafn vel og með slíkri fjárfestingu. Þar tala ég af góðri reynslu.

Ég vil segja strax að af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur komið fram í umræðum áður en þetta mál kom hingað, að hún er þess mjög fýsandi að málið gangi hratt og vel fyrir sig. Stjórnarandstaðan greiddi því atbeina sinn að það væri tekið á dagskrá með afbrigðum til þess í senn að sýna stuðning við málið og alkunna sáttfýsi sína gagnvart stjórnarliðinu. Ég segi það alveg klárt og kvitt að ég vil að málið verði afgreitt hið fyrsta og á þessu þingi og er jafnvel reiðubúinn til að gera svolítið hlé á málefnalegum, löngum og örugglega mjög fjörugum umræðum um Ríkisútvarpið til að það mætti nást.

Það frumvarp sem hæstv. ráðherra lýsti er að flestu leyti hugvitsamlega og vel gert. Ég er sammála ýmsu sem hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega til að draga úr skriffinnsku, umstangi og umsýslu. Ég er mjög ánægður með það skattumhverfi sem hæstv. ráðherra ætlar þessum lögum að frumvarpinu samþykktu að hvíla í.

Það er einungis einn skavanki á frumvarpinu sem ég ætla að finna að, hann er dálítið grófur en sem betur fer varðar hann fáa. Ég þekki það af mínu ágæta samstarfi við hæstv. félagsmálaráðherra og formann félagsmálanefndar að þeir eru örugglega reiðubúnir til að skoða út í hörgul hvort ekki sé hægt að ráða bót á því. Í máli ráðherrans kom fram að í einni grein frumvarpsins, 5. gr., síðustu málsgrein, kemur skýrt fram að einungis er ætlast til að ættleiðingarstyrkur sé veittur vegna ættleiðinga sem fara fram fyrir atbeina eða milligöngu löggilts ættleiðingarfélags. Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga að reynt sé að tryggja allt í tengslum við ættleiðingar. Ég hef sjálfur barist fyrir því á Alþingi að Íslendingar, með samþykki Alþingis, staðfestu Haag-sáttmálann sem girðir í veg fyrir kaupskap og jafnvel rán á börnum eins og því miður eru dæmi um enn í dag, og þá var í gadda slegið að forsamþykki til ættleiðingar yrði einungis veitt í gegnum löggilt ættleiðingarfélög, þ.e. Íslenska ættleiðingu, sem hefur staðið sig ákaflega vel.

Á þeim tíma þegar lögin sem nú gilda um ættleiðingar voru samþykkt á grundvelli Haag-sáttmálans voru nokkrir úfar hér í þingsal vegna þess að afráðið var að beina ættleiðingum með þessum hætti í farveg eins félags. Ástæðan var sú að margir hafa farið þá leið að ættleiða af eigin sjálfsdáðum og frumkvæði, ég er einn af þeim til dæmis. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að hafa val hvort þeir fara í gegnum félag eða eftir sínum eigin leiðum.

Látum það nú vera hvaða skoðanir ég hef á því. Ég vil hrósa sérstaklega hæstv. dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, fyrir að þó að þetta sé meginreglan hefur hún verið túlkuð svo af hálfu dómsmálaráðuneytisins að ef hægt er að ganga úr skugga um að sérstök tengsl séu millum hinna væntanlegu foreldra og lands sem ættleiða á frá, þá hefur forsamþykki fengist frá ráðuneytinu en að sjálfsögðu einungis þegar búið er að grafast vandlega fyrir um hvort foreldrar séu hæfir og sömuleiðis þegar búið er að grafast fyrir um, fyrir atbeina hins íslenska stjórnvalds í hinu erlenda landi, þ.e. utanríkisþjónustunnar, og staðfesta að allt sé með felldu. Þetta hefur gerst á síðustu árum í einhverjum tilvikum og það er mjög vel. Mér finnst að sú leið sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur farið í þessu efni sameini þetta hvort tveggja, þ.e. að meginstraumur ættleiðinga liggur í gegnum hið löggilta ættleiðingarfélag en það er samt ekki girt fyrir að menn geti fyrir eigin atbeina ættleitt barn við sérstakar aðstæður og að fengnum tryggum upplýsingum um að öllum skilyrðum af hálfu íslenskra stjórnvalda sé fullnægt.

Þess vegna skýtur það skökku við að í 3. mgr. 5. gr. og sömuleiðis í greinargerðinni um þá málsgrein komi það algjörlega skýrt fram að greiðslur þessa styrks eigi að binda við ættleiðingar sem fari fram fyrir milligöngu þessa félags. Það þýðir að ef einhver ætlar sér að ættleiða frá landi sem hið íslenska ættleiðingarfélag hefur ekki formleg tengsl við fær hann ekki styrkinn. Hann gæti samt sem áður fengið áfram leyfi dómsmálaráðuneytisins. Það vill svo til að slík dæmi liggja á borðinu. Ég get greint frá því að dæmi er um hjón sem hafa ættleitt barn frá landi þar sem íslenskur embættismaður sem starfar í sendiráði Íslands í því landi hafði gengið úr skugga um að allt væri með felldu með þá stofnun sem barnið var fengið frá og sömuleiðis með þá tilhögun sem var á ættleiðingunni. Það barn er komið, við höfum samþykkt það sem ríkisborgara og það er orðið þriggja ára gamalt. Þessir foreldrar hafa hug á því að verða sér úti um systkini við þetta barn frá sama stað. Það þýðir að foreldrarnir mundu ekki fá þennan styrk. Það er ekki jafnræði, það er ekki sanngirni og ég er viss um að allir sem hlusta á þetta eru mér sammála um það.

Ég veit hins vegar nákvæmlega af hverju menn gera þetta. Þeir eru að girða fyrir að greiddir verði út ættleiðingarstyrkir vegna svokallaðra fjölskylduættleiðinga þar sem verið er að ættleiða barn einstaklings sem hefur flust frá öðru landi og gifst hingað. Ég er algjörlega sammála því. Það er um allt annars eðlis ættleiðingar að ræða þá. Það er með engu móti hægt að segja að þó að það sé gert sé verið að brjóta einhvers konar jafnræði. En í því tilviki sem ég lýsti áðan er alveg örugglega verið að gera það. Ekki mundi vera um mikinn kostnað að ræða fyrir íslenska ríkið því að ég hygg að það sé að meðaltali tæplega eitt barn á ári sem kemur hingað með þeim hætti. Þeim fer fækkandi vegna þess að Íslensk ættleiðing er að verða sér úti um tengsl við fleiri lönd. En jafnvel stór lönd eins og Rússland þar sem af ýmsum ástæðum er mögulegt fyrir íslenska foreldra að ættleiða barn frá eru ekki formleg tengsl við það land. Það þýðir t.d. að þó að rússnesk stjórnvöld og rússneskar stofnanir séu af vilja gerðar og margir íslenskir foreldrar vildu vafalítið njóta þess, þá mundi ekki vera hægt að fá styrk til að standa straum af kostnaði við það jafnvel þó að íslenska dómsmálaráðuneytið mundi veita forsamþykki, eins og dæmi eru um.

Nú er það svo að ekki eru mörg lönd í heiminum reiðubúin til að ættleiða út úr landinu börn sem eru foreldralaus og þeim jafnvel fer fækkandi. Í sumum þeirra landa þar sem slíkt þjóðarörlæti hefur verið einkennandi fyrir viðhorf til ættleiðinga, eins og Kólumbíu, er nú tekist á um hvort leyfa eigi það áfram. Í öðrum löndum Suður-Ameríku, sem nokkrir góðir íslenskir ríkisborgarar hafa komið frá, t.d. Gvatemala, er búið að loka á það. Á móti hafa opnast lönd sums staðar eins og Rússland, sem ég nefndi áðan. Ég held að ekki sé hægt að brjóta með þessum hætti gegn rétti fólks sem fullnægir skilyrðum yfirvalda og fellur ekki undir fjölskylduættleiðingar, það hlýtur að standa jafnfætis þeim sem fara í gegnum hið löggilta félag.

Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna, frú forseti. Ég vona að þetta verði skoðað í nefndinni og ég áskil mér allan rétt til að leggja fram breytingartillögu er þetta varðar ef ekki tekst samstaða um það í nefndinni. Ég held að menn hljóti að leggja það á sig að breyta þessu á þann hátt því að það hlýtur að vera leið til þess án þess að um leið sé verið að opna fyrir það sem ég nefndi áðan, þ.e. fjölskylduættleiðingarnar, sem allt annað mál gildir um.