133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:24]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyrði það á mæli hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar að hann dró í efa að frjóa hugsun væri að sækja til Framsóknarflokksins en ég verð þó að játa að mér fannst ræða fyrrverandi flokksformanns varðandi Ríkisútvarpið bara nokkuð góð og alveg full ástæða til að taka undir hana og ástæðulaust fyrir þingmanninn að vera að snupra fyrrverandi formann sinn með þessum hætti.

Það er auðvitað alveg rétt að það er talsvert af fólki sem hefur flúið Framsókn og sótt yfir til Samfylkingarinnar en það sem er dapurlegt er að Framsóknarflokkurinn virðist ekki koma neinum vörnum við. Hann kemur engum vörnum við í því kæfandi faðmlagi við Sjálfstæðisflokkinn sem er algerlega að fara með hann og kominn með hann niður í það fylgi sem raun ber vitni og undan því getur þingmaðurinn ekki hlaupið (Gripið fram í.) og hann getur heldur ekki kallað sig hér úr hliðarsal undan þeirri staðreynd.

Þingmaðurinn spurði um afstöðu varaformanns Samfylkingarinnar, Ágústs Ólafs Ágústssonar, til þessa máls og hann fór rangt með að hann hefði lýst yfir stuðningi við þetta frumvarp. Það hefur hann ekki gert. Hins vegar hefur hann talið að hlutafélagaformið gæti vel komið til greina. Það er reyndar rétt að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að ég sagði það í ræðu minni að í sjálfu sér hefði ég ekkert á móti hlutafélagaforminu varðandi ríkisrekstur en þá og því aðeins að menn ætluðu sér annaðhvort að leita til fleiri aðila á markaðnum eða selja eða ætluðu sér í annars konar opinberan rekstur en ætlunin er með Ríkisútvarpinu. Ég tel að þetta sé óheppilegt form að velja Ríkisútvarpið, ég tel að það sé rangt, ég tel að það muni leiða til togstreitu um Ríkisútvarpið og þess vegna eigi ekki að velja hlutafélagaformið, þess vegna eigi að velja sjálfseignarstofnunarformið. Það er niðurstaða mín af þessu máli.