133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta umdeilda frumvarp um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins einfaldlega vegna þess að ég lít svo á að hin eiginlega umræða fari fram síðar. Eins og fram hefur komið í fréttum tókst samkomulag um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu að þessi umræða, önnur umræða af þremur, yrði tiltölulega stutt en á hinn bóginn færi fram umræða á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún hafi þann ásetning að ljúka þessu máli þá og í fréttum sjónvarps í kvöld sagði hæstv. forsætisráðherra að hann stefndi að því að málinu yrði lokið um 20. janúar eða þar um bil. Um það er ekkert samkomulag í stjórnarandstöðu, ekkert samkomulag. Að sjálfsögðu viljum við að þessi ómynd sem þetta frumvarp er verði aldrei að lögum og við munum að sjálfsögðu gera allt það sem við getum til að koma vitinu fyrir stjórnarmeirihlutann og þar með í veg fyrir að hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins eigi sér stað.

Það sem kom mér á óvart við að fylgjast með fréttum fjölmiðla í kvöld voru viðbrögð Framsóknarflokksins, formanns Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðarráðherra Jóns Sigurðssonar, því hann virtist engu síður ákafur en formaður Sjálfstæðisflokksins að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé komin einhver arfleifð fyrri tíma, eitthvert samkomulag frá fyrri tíð um að Ríkisútvarpið skuli hlutafélagavætt því ég hef ekki trú á því að þessi skoðun sé ríkjandi í Framsóknarflokknum almennt, a.m.k. ekki á meðal kjósenda Framsóknarflokksins. Svo mikið veit ég.

Reyndar er það svo að meðal sjálfstæðismanna er mikil og vaxandi andstaða gegn þessu frumvarpi. Hún kemur úr tveimur áttum. Hún kemur úr frjálshyggjuáttinni. Hér gengur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson um, en hann hefur sjálfur flutt frumvarp um að leggja Ríkisútvarpið niður sem ríkisstofnun. Hann vill selja Ríkisútvarpið en Sjálfstæðisflokkurinn hafði smekk til að gera hann að megintalsmanni þessa frumvarps sem formanns hv. menntamálanefndar, um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og heita því í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi hjá sjálfstæðismönnum hér á þingi að Ríkisútvarpið verði ekki selt. Þetta er önnur áttin.

Síðan er það gamla menningarrótin innan Sjálfstæðisflokksins, menn eins og Jón Þórarinsson, fyrrum dagskrárstjóri hjá Ríkisútvarpinu, einarður sjálfstæðismaður sem hefur skrifað grein og greinar um Sinfóníuhljómsveit Íslands og hve óráðlegt sé af hálfu Ríkisútvarpsins að höggva á tengslin þar á milli vegna þess að hinir gömlu stjórnendur Ríkisútvarpsins skildu mætavel samhengið á milli þess að hafa skyldur og njóta réttinda.

Ríkisútvarpið hefur alla tíð haft miklum skyldum að gegna sem fjölmiðill, upplýsingamiðill og sem menningarstofnun, sem ein helsta menningarstofnun íslensku þjóðarinnar. Fyrrverandi útvarpsstjórar, Andrés Björnsson, ég nefni hann sem dæmi um mann sem starfaði í þessari menningarhefð, þeim hefði aldrei komið til hugar það sem kemur nú frá núverandi stjórnendum Ríkisútvarpsins um að losa þessa stofnun við skyldur sínar og er ég þá að horfa sérstaklega til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það er úr þessari átt innan Sjálfstæðisflokksins sem við verðum vör við vaxandi gagnrýni á hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.

Ríkisstjórnin og stjórnendur, æðsti stjórnandi Ríkisútvarpsins hafa reynt að slá á gagnrýni fólks, starfsfólksins og annarra með alls kyns gylliboðum og yfirlýsingum. Fyrir fáeinum dögum var því lýst yfir gagnvart starfsmönnum að þeir héldu öllum réttindum sínum, kjarasamningsbundnum og lagalegum. Síðan kom annað á eftir, svo lengi sem núverandi kjarasamningar halda. Hvað svo? Jú, þá verði samið við einstaklingana um að færa réttindi og kjör yfir í annað form því ef Ríkisútvarpið verður gert að hlutafélagi er það komið á einkaréttarlegan grundvöll, komið undan lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og samningar fara fram á öðrum lagagrunni. Hvað mun það þýða? Jú, það hefur komið fram við umræðuna og verið upplýst að útvarpsstjóri telji að það muni hafa í för með sér aukinn launamun innan stofnunarinnar. En menn verði hins vegar frjálsir að því að semja á einstaklingsgrunni — við hvern? Við hann sjálfan? Við húsbóndann sem hefur það vald að reka viðsemjanda sinn úr störfum. Síðan leyfa menn sér að koma hingað upp og halda því fram að það sé verið að halda inn í framtíðina. Það er verið að halda inn í hina myrkustu fortíð áður en starfsfólk naut þeirra réttinda sem hafa smám saman verið ofin inn í mynstur á síðustu öld og tók langan tíma. Þetta mynstur var ofið hér í þinginu og í kjarasamningum starfsfólksins. Það voru sett stjórnsýslulög, það voru sett upplýsingalög, það voru sett lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og margvísleg önnur réttindi. Það var samið um fjölskyldu- og styrktarsjóð, það var samið um aðkomu starfsmanna að framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Allt þetta verður tekið brott. Það er ekki einu sinni haft fyrir því að ræða við þau samtök sem sömdu um þessi efni, sem sömdu um aðild starfsmannasamtakanna, Starfsmannafélag sjónvarpsins og Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins að framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins í byrjun 9. áratugar síðustu aldar. Þessu er bara svipt brott. Fjölskyldu- og styrktarsjóður. Munu konur í Ríkisútvarpinu sem ráðnar verða eftir og ef Ríkisútvarpið verður gert að hlutafélagi, eiga aðild að Fjölskyldu- og styrktarsjóði opinberra starfsmanna sem tryggir þeim bærilegri réttindi í fæðingarorlofi en gerist á almennum vinnumarkaði? Nei. Munu nýráðnir starfsmenn fá aðild að A-deild Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, eins og lög gera ráð fyrir að heimilt sé? Nei, það eru engin vilyrði um slíkt, engin.

Þá er komið að meginspurningunni: Hvers vegna er verið að gera þetta? Hvers vegna í ósköpunum er verið að gera þetta? Hvernig stendur á því að þingmenn í stjórnarmeirihlutanum láta hafa sig út í þetta, að breyta lögum sem ekki verður séð að séu til annars en skerða réttindi starfsfólksins? Þau eru ekki til annars. Af hverju er stofnunin tekin undan stjórnsýslulögum? Út á hvað ganga stjórnsýslulög? Það er að jafnræðis sé gætt, stjórnsýslulögin snúast um jafnræði. Hvers vegna vill Alþingi setja stjórnsýslulög um opinbera starfsmenn? Það er vegna þess að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að ef starfsemi er rekin með skattfé okkar, þá eigum við ákveðinn rétt sem skattborgarar, m.a. að jafnræðis sé gætt við ráðstöfun þessara fjármuna. Þessi lög hafa öll sinn tilgang. En það sem er að gerast núna er að með þessari lagasetningu er öll stjórn og öll yfirráð yfir allri dagskrárgerð Ríkisútvarpsins færð í hendur eins manns. Menn hafa verið að ræða um útvarpsráð og pólitísk tengsl útvarpsráðs, en nú er það einn maður. Það er einn maður sem ræður einn yfir allri dagskrárgerð Ríkisútvarpsins og einn getur hann ráðið og rekið alla starfsmenn. Hvernig er hann ráðinn sjálfur? Jú, það er pólitískur meiri hluti á Alþingi hverju sinni, ríkisstjórnarmeirihlutinn, sem skipar hann og getur rekið hann. Finnst mönnum þetta eiga eitthvað skylt við framtíðina? Ég er ekkert undrandi á því að stjórnarmeirihlutinn og þingmenn úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki hlaupi á dyr. Og það er að renna upp fyrir mér núna hvers vegna formaður Framsóknarflokksins vildi klára málið núna. Hann vill komast í felur með það fyrir jólin. Framsóknarflokknum hlýtur að finnast þetta óþægilegt mál. Það hygg ég að sé ástæðan fyrir því að formaður Framsóknarflokksins er óánægður yfir því að málið sé ekki klárað nú. Ég held að það sé skýringin.

En er Ríkisútvarpið rekið á besta hugsanlega máta, er því búin heppileg lagaumgerð? Nei, sú lagaumgerð er barn síns tíma og það er vilji til þess innan stjórnarandstöðunnar að gera breytingar þar á. Það eru mismunandi áherslur en það er jafnframt vilji til að finna sameiginlega lausn. Út á hvað ganga þær hugmyndir? Án þess að ég ætli að fara nákvæmlega ofan í saumana á þeim þá er rauði þráðurinn þessi: Færum ábyrgð yfir stjórnsýslunni inn í stofnunina, út úr ráðuneyti. Núna skipar ráðuneytið tiltekna stjórnendur í stofnuninni. Færum þær ráðningar og ábyrgð inn í stofnunina. Sömuleiðis með mannaráðningar, og þar vísa ég í tillögur og hugmyndir sem byggja á frumvarpi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þegar um er að ræða ráðningar í dagskrárgerð þá viljum við að fleiri komi þar að máli en einn maður, til að tryggja breidd þá verði það samkvæmt tillögunni í samráði við framkvæmdastjórn sem hefur á að skipa stjórnendum og fulltrúum starfsmanna. Það er til að tryggja opna ráðningu, að það sé ekki einn maður sem ráði þar öllu.

Ég gæti tínt til aðrar hugmyndir sem er að finna í frumvarpi okkar. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í það. Við erum með hugmyndir um að leggja útvarpsráð í núverandi mynd niður. Fyrir okkar leyti í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði finnst okkur eðlilegt að hafa tengsl inn í lýðræðissamkunduna, inn í Alþingi, tryggja tengslin þar á milli, en við viljum ekki að það sé stjórnarmeirihlutinn sem er þar ráðandi. Við viljum að fleiri komi þar að, Bandalag ísl. listamanna, Samband sveitarfélaga, Neytendasamtökin. Við nefnum tiltekna aðila auk fulltrúa stjórnmálaflokka, ekki hlutfallslega kosna heldur fulltrúa sjónarmiða öllu heldur. Þetta dagskrárráð verði eins konar fulltrúaráð fyrir landsmenn, ekki til að ráðskast með dagskrána heldur til að hafa eftirlit eða öllu, til að veita aðhald með hliðsjón til þeirra lagaskyldna sem á Ríkisútvarpinu hvíla og þar erum við með hugmyndir um að styrkja íslenska dagskrárgerð.

Þetta er reyndar eitt af því sem veifað var skömmu áður en þing kom saman. Þá birtust í fjölmiðlum hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóri og gumuðu af samkomulagi sem gert hefði verið þeirra í millum um að auka hlutdeild íslensks efnis í Ríkisútvarpinu. Gott og vel, ljómandi fínt. Þetta er hins vegar algerlega óháð hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, algerlega. Danmarks Radio, sem er ríkisstofnun og ríkisstjórnir hafa slíkt samkomulag sín í milli, BBC, breska útvarpið, British Broadcasting Service, byggir á samkomulagi við bresku ríkisstjórnina en um hvernig til muni takast verður hins vegar háð fjárveitingum til Ríkisútvarpsins, til stofnunarinnar. Auðvitað er það líka háð því hvernig farið er með þá peninga en það þarf að vera fjármagn til ráðstöfunar ef íslensk dagskrárgerð á að vera eitthvað annað en orðin tóm, annað en bara tal á íslensku. Við erum að tala um efni sem einhver innstæða er fyrir að tala um sem íslenska dagskrárgerð og þá kemur á daginn að Ríkisútvarpið á ekkert að fá meiri peninga, það hefur aldrei staðið til. Það er hins vegar sagt að Ríkisútvarpið muni fara svo miklu betur með peninga eftir að það verður gert að hlutafélagi að það verði meira til ráðstöfunar.

Meira að segja er öðru hverju tekið undir að það eigi að skerða auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins sem þá hefði í för með sér að fjármunir sem það hefði til ráðstöfunar yrðu enn minni en ella. En þetta er sem sagt meginráðið, að hagræða innan stofnunarinnar. Útvarpsstjóri hefur talað um 6% hagræðingu, ef ég heyrði rétt í umræðu í dag, án þess að skilgreina á hvern hátt hann ætlaði að ná þeirri hagræðingu. Það er ýjað að því öðru hverju að það eigi að reka einhverja tiltekna starfsmenn, það hefur margoft verið ýjað að slíku á fundum en allt er þetta í véfréttastíl. En mér finnst sannast sagna ekki hugnanleg mynd sem dregin er upp um aukinn kjaramun innan stofnunarinnar. Það er bara sagt beinum skrefum og síðan niðurskurð upp á 6%. Viljum við þetta? Getur verið að það sé farið að stjórna í þessum anda nú þegar? Getur verið að kjaramunur innan Ríkisútvarpsins sé að aukast? Getur verið að menn séu þar farnir að starfa í meiri leynd en áður var? Getur verið að eitthvað í fjárhagnum sé þess eðlis að menn vilji gjarnan komast í skjól sem fyrst, sem hlutafélag með einu hlutabréfi sem einn ráðherra getur fylgst með? Er það það? Liggur mönnum á af þeim sökum?

Nei, um Ríkisútvarpið hefur ríkt ákveðin sátt í samfélaginu. Mjög breið sátt. Menn hafa verið hundóánægðir með ýmsa þætti og starfsemi á vegum RÚV, svona eftir atvikum. Það hefur sveiflast til. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er t.d. mjög óánægður með dagskrárgerð í sjónvarpinu eða öllu heldur aðkeypta dagskrá sem mér finnst ekki sæmandi ríkissjónvarpi. Mér finnst margt mjög gott í hljóðvarpi, bæði á Rás 1 og Rás 2. Það gleymist stundum að Rás 2 gegnir og hefur gegnt mjög mikilvægu menningarhlutverki þegar kemur að alþýðutónlist, popptónlist o.s.frv. Þar hefur margt vel til tekist.

Þessi sátt hefur verið breið. Þrátt fyrir óánægju og gagnrýni sem oft blossar upp hafa menn viljað greiða til Ríkisútvarpsins. Ég held að hægt sé að fullyrða að svo hafi verið að undanskildum hópi frjálshyggjumanna sem hafa barist gegn afnotagjöldum. Það er barátta sem ég virði fullkomlega. Hún byggir á því að það eigi ekki að lögskylda menn til að greiða til útvarpsstöðvar og allt slíkt eigi að vera á markaði. En það hefur verið tiltölulega lítill minnihlutahópur. Þessi hópur verður enn til en nú verður til annar hópur sem kemur hinum megin frá og segir: Ég sætti mig ekki við að borga lögþvingaðan skatt til starfsemi sem ekki lýtur almennum lögum um opinbera starfsemi. Menn sætta sig ekki við það. Með þessu frumvarpi er því rofin sú breiða samfélagssátt sem ríkt hefur um Ríkisútvarpið. Á þeim punkti hef ég fyrir mitt leyti átt samleið með núverandi ritstjóra Fréttablaðsins, Þorsteini Pálssyni. Hann hefur haldið svipuðum sjónarmiðum fram.

Ég ætla ekki að hafa mitt mál mikið lengra. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni, hefur gert prýðilega grein fyrir sjónarmiðum okkar í ítarlegri ræðu í dag og ástæðulaust að tíunda það í umræðu sem við höfum fallist á að verði tiltölulega stutt. Komið hefur fram mjög alvarleg gagnrýni frá samtökum starfsfólksins, nokkuð sem við munum að sjálfsögðu fara rækilega yfir þegar málið kemur til umræðu á næsta ári, sem ég vona að sjálfsögðu að verði ekki. Maður lifir alltaf í voninni um að ríkisstjórnin sjái að sér og reyni að leita sátta, breiðrar samstöðu við okkur í stjórnarandstöðunni, samtök starfsfólksins og fleiri um farsæla lausn. Sannast sagna finnst mér að ríkisstjórnin eigi að sjá sóma sinn í því að reyna ekki að keyra málið í gegn á síðustu mánuðum valdatíma síns. Hvað sem fólki finnst þá er óumdeilt að þetta frumvarp hefur verið harðlega gagnrýnt í þjóðfélaginu, ekki bara innan þings heldur í þjóðfélaginu almennt.

Fyrir stundu skaut framsóknarmaður inn höfði og er náttúrlega aftur horfinn af vettvangi. En ég hefði gjarnan viljað beina til hans spurningu: Hvers vegna ætla framsóknarmenn að taka þátt í að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og greiða þannig götu einkavæðingar og sölu þess?

Eitt vil ég segja að lokum. Með því að færa Ríkisútvarpið í búning hlutafélags er grafið undan sérstöðu þess og mun þá hertur róðurinn, af hálfu samkeppnisaðila, til að svipta það sérréttindum sem það nýtur. Ég segi: Það verður erfiðara að veita stofnuninni vörn ef frumvarpið nær fram að ganga. Ég er sannfærður um það. Stjórnendur Ríkisútvarpsins verða að skilja að það er ekki hægt að hafa hið besta úr öllum heimum. Það er ekkert hægt. Það er ekki hægt að fá upp í hendurnar skattfé borgarans og fá síðan ótakmarkað leyfi til að ráðstafa þeim peningum sjálfur, einn síns liðs, ráða og reka fólk, mismuna í launum, lýsa því yfir að kjaramisrétti aukist og ráðskast með dagskrána einn. Hvers konar eiginlega rugl er þetta? Getur verið að menn ætli að samþykkja þetta?

Ég skil vel að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn séu hlaupnir úr salnum og vilji ekki heyra orð af þessu tagi. Framsóknarflokkurinn vill fá þetta mál afgreitt í sem mestri kyrrþey. (KolH: Helst að næturlagi.) Helst að næturlagi. Svo verður ekki. Það hefur ekkert samkomulag verið gert um lyktir þessa máls. Ég segi: Það á eftir að fara fram mikil og hörð umræða, mjög gagnrýnin umræða, áður en þetta frumvarp verður afgreitt í eins og það liggur fyrir þinginu.