133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að undrast áhuga minn á Framsóknarflokknum. Ég er gamall líffræðingur og hef áhuga á öllum þeim tegundum sem eru í útrýmingarhættu.

Ég tel að Framsóknarflokkurinn sé það. Ég tel að það sé hætta á því að Framsóknarflokkurinn kunni að þurrkast út í stórum kjördæmum og það er vegna þess að hann hefur svikið hugsjónir sínar. Það er vegna þess að hann tekur hér afstöðu aftur og aftur í umdeildum málum með Sjálfstæðisflokknum, fjarri upprunalegum gildum sínum og markmiðum.

Það er þetta rof sem hefur í Íraksmálinu, útvarpsmálinu og ýmsum málum orðið milli forustunnar og grasrótarinnar sem gerir það að verkum að flokkur sem var stór og öflugur er nú í miklum háska staddur.

Það er hins vegar svo að það ekkert óeðlilegt við það að ræða saman Framsóknarflokkinn og Ríkisútvarpið. Ástæðan er sú að það er stuðningur Framsóknarflokksins við málið sem gerir það hugsanlega að verkum að frumvarpið verði að veruleika. Það er athyglisvert að þeir sem tala mest um þróttinn með þessu frumvarpi, það eru ekki ungir sjálfstæðismenn, það eru ekki þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Það eru hinir ungu þingmenn Framsóknarflokksins sem hingað koma og láta nota sig til óhæfuverka eins og að samþykkja þetta frumvarp. Það er þess vegna sem það er sjálfsagt að menn taki þá inn í þessa umræðu.

Það er mjög merkilegt að heyra ungan þingmann koma hingað og halda því fram að það sé engin ólga innan Framsóknarflokksins út af þessu máli. Sú ólga hefur verið fyrir hendi og hún þarf ekkert að segja mér um það. Ég hef verið lengi í pólitík og þekki marga innan Framsóknarflokksins. Það eru sannarlega fleiri en Björn Ingi Hrafnsson — sem hv. þingmaður virðist hafa sérstakan áhuga á að ómerkja hér í þessari umræðu, enn einn parturinn af ágreiningnum innan forustu Framsóknarflokksins — sem hafa verið harkalega á móti þessu.

En auðvitað hljóta menn að staldra við þegar forustumaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkurborg lýsir því fjórum sinnum yfir á sömu helginni að meiri hluti framsóknarmanna sé á móti umræddu frumvarpi.