133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[23:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað tvenns konar misskilningur hér á ferðinni. Annars vegar er sá hjá meiri hluta menntamálanefndar að þessi tilmæli til menntamálaráðherra hafi eitthvert gildi. Þá væri menntamálaráðherra að minnsta kosti skroppnari að skyni en ég tel að hún eða þeir séu og verði í framtíðinni, ef þeir færu að þessum tilmælum meiri hluta menntamálanefndar vegna þess að þetta er misskilningur á kostunarfyrirbrigðinu sjálfu.

Það er ekki svo að kostun, þó að hún tengist yfirleitt þáttum eða einhverju sérstöku efni, sé bundin við að það fé renni nákvæmlega til þess efnis. Það er ekki þannig.

Kostun er ósköp einfaldlega tekjur sem renna inn. Hins vegar er það stundum þannig með kostun eins og auglýsingar að það er hægt að selja þær út á sérstaka þætti, á sama hátt og sumir þættir eru sýndir til að afla auglýsinga þá getur kostun auðvitað bjargað einstaka þáttum.

Það væri því út í hött og ef verið væri að takmarka kostun með einhverjum hætti, þá væri fáránlegt að takmarka hana við einhvern einn þátt. Það sem gæti skipt hér máli er að kostunarféð væri þá markað með einhverjum hætti. En þá er nú farið að skipta sér ansi mikið af innri málum þess Ríkisútvarps ohf. sem átti að leika laust og liðugt á markaðnum.

Hins vegar er rétt að formaður menntamálanefndar svari til um það sem ekki enn þá hefur komið í ljós. Það er um hinn klassíska tónlistarflutning hljómsveitarinnar í Ríkisútvarpinu. Vegna þess að á síðasta sprettinum í menntamálanefnd kom í ljós að það var skilningur Ríkisútvarpsins eða forstöðumanna þess að þeir mundu fá það ókeypis í framtíðinni af einhverjum dularfullum ástæðum sem ekki hafa enn verið upplýstar.