133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:09]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hefur ekki grundvallaráhrif á íslenska hagsmuni á alþjóðamörkuðum hversu oft hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur upp í stólinn og rembist. Það sem skiptir máli er það að þegar hann tók ákvörðun sína sem ríkisstjórnin lagði blessun sína yfir, og virðist hafa gert að umhverfisráðherra annaðhvort fjarstaddri eða sofandi og landbúnaðarráðherra sennilega í roti, lá ekki fyrir neins konar spádómur eða könnun um það hvaða áhrif þessi ákvörðun mundi hafa, ekki á ferðamenn sem vildu sækja okkur heim, á markaðsstarf okkar í sjávarútvegi eða landbúnaði og auðvitað ekki á það orðspor sem við Íslendingar höfum nýtt okkur í alþjóðlegum samskiptum á diplómatískum vettvangi og í almennum viðskiptum.

Það er rétt að rifja upp að fyrir tveimur þingum var hér sérstaklega beðið um skýrslu frá hæstv. samgönguráðherra um áhrif þeirra hvalveiða sem þá var um að ræða, vísindaveiðanna, á ferðaþjónustuna. Hæstv. samgönguráðherra var fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar með japl, jaml og fuður í heilt ár og lét að lokum Ferðamálaráð semja þessa skýrslu fyrir engan pening og með engum starfskrafti. Það vissu allir hvernig það færi vegna þess að formaður Ferðamálaráðs var þá Einar K. Guðfinnsson, hvalveiðisinni, þjóðrembumaður og núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég spyr af því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er ekki hér í salnum: Hvað varð um loforð Einars Odds Kristjánssonar um 300 millj. í markaðssetningu fyrir ferðamenn? Hvað varð um loforð Einars Odds Kristjánssonar, (Forseti hringir.) formanns Ferðamálaráðs, um nýja alvörukönnun um það hvernig (Forseti hringir.) ferðamarkaðurinn færi út úr hvalveiðunum?