133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[12:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins um að verkefni á vegum Fæðingarorlofssjóðs yrðu unnin á Hvammstanga. Mér finnst það í sjálfu sér ekki eiga að vera gagnrýnisvert og ég hygg að mörgum hafi þótt Tryggingastofnun ríkisins, sem þetta verkefni hefur verið vistað hjá, vera býsna miðlæg í störfum sínum. Hún hefur byggst nánast alfarið upp í Reykjavík og verkefni á vegum Tryggingastofnunar ríkisins hafa lítið þróast út í það að vaxa úti á landi þrátt fyrir stefnumörkun og yfirlýsingu stjórnvalda í aðra átt. Ég hef alltaf orðið hvað vonsviknastur yfir því að stjórnvöld koma með digrar yfirlýsingar um eflingu opinberrar þjónustu, flutning og uppbyggingu á opinberri þjónustu á landsvísu og það verði flutt út á land en síðan hefur eftirfylgnin alltaf verið með þveröfugum hætti. Mér finnst það ekki vera sérstaklega gagnrýnisvert að þetta sé gert. Reyndar er ekki kveðið á um þetta í lögunum heldur er þetta ráðherraákvæði þannig að næsti ráðherra getur í sjálfu sér kippt þessu burt. Ég vil gjarnan að svona lagað verði bundið í lögum til að tryggja að starfsemi sé byggð upp og ekki væri verið að rokka með hana eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á með tilheyrandi stofnkostnaði o.s.frv. Nú eru hugmyndir um t.d. að Byggðastofnun verði ef til vill flutt frá Sauðárkróki en búið er að leggja í ærna fyrirhöfn að byggja hana þar upp. Ég spyr því hv. þingmann hvort í þeirri almennu stefnu um að byggja störf upp, almenn þjónustustörf, úti á landi, hvort það sé í sjálfu sér ekki góðra gjalda vert og gott mál.