133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna.

[15:09]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hægt er að skamma hv. þingmann miklu meira en hér hefur gert. En ég held að það sé rétt umræðunnar vegna að rifja upp þau ummæli sem kannski mesta athygli vöktu í hádegisfréttunum. Þau voru á þennan veg, með leyfi forseta:

„Það voru í sjálfu sér engir sko, við vorum eini flokkurinn sem í raun og veru vildi starfa fram að jólum. (Gripið fram í: Sko.) Og auðvitað er almenningur alveg gapandi hissa á því að þingmenn skuli þurfa að fara í jólafrí sko ... Við vorum eini flokkurinn sem var tilbúinn til þess að starfa í tvær vikur í viðbót ...“

Hér er kannski mjög athyglisvert að Framsóknarflokkurinn er núna á einhverju umbreytingatímabili. Nú eru að koma kosningar og nú ber Framsóknarflokkurinn ekki ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut, ekki einu sinni þinglokunum. (Gripið fram í: Skiptir engu máli heldur.) Og skiptir kannski engu máli. Sjálfstæðismenn þurfa ekki einu sinni að tala við framsóknarmenn þegar þeir ljúka þinginu, svo ábyrgðarlitlir eru þeir orðnir á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í.) Kjarninn í þessu, eins og félagar mínir á hinu háa Alþingi hafa dregið fram, er að þegar við tölum um þingið á þann hátt sem gert er í þessu þá drögum við virðingu þess niður. Ég verð að segja alveg eins og er að ég man ekki eftir því að þingmaður hafi komið í útvarpsviðtal og nánast lýst því yfir að hann og nokkrir vinir hans í flokknum séu ofsalega duglegir og tilbúnir að vinna á meðan aðrir séu ekki tilbúnir að gera neitt. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt aðra eins umræðu eða ummæli eða að nokkur hafi leyft sér að fara þessum orðum um þingmenn á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom þó hér upp og reyndi að gera eins gott úr þessu og nokkur var kostur. Mér fannst hann þó, í orðum og eins langt og það náði, biðjast þó afsökunar á sinn hátt á þessum ummælum og er það vel. En ég vonast til þess að við sjálf séum ekki að draga úr virðingu þingsins á þann hátt sem gert var í hádeginu í dag.