133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[15:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

(Gripið fram í.) Frú forseti. Einn hv. þingmaður kallar fram í: Vertu nú góður við framsóknarmenn, og liggur sjálfur eins og lúbarinn hér úti í sal, og ég ætla að vera að góður við framsóknarmenn í þessu máli og hrósa hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að hafa loksins ýtt þessu máli til framkvæmda. Þetta er mál sem hefur verið lengi til umræðu á hinu háa Alþingi og að því hafa komið margir þingmenn úr mörgum flokkum og aðdragandann má rekja töluvert langt aftur í tímann þegar ýmsir þingmenn voru með fyrirspurnir um þessi mál og óskuðu eftir því að gerð yrði bragarbót á íslenskum lögum þannig að þau yrðu færð til samræmis við það sem gerist í grannlöndum. Hér hefur enginn þingmaður mælt gegn þessu nema einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Þetta var eitt af þeim málum sem stjórnarandstaðan gerði samkomulag um við ríkisstjórnina og sérstaklega hæstv. félagsmálaráðherra, að greiða og flýta för þess í gegnum þingið. Það hefur verið gert. Það var með atbeina stjórnarandstöðunnar að málið var tekið með afbrigðum á dagskrá til þess að hægt væri að mæla fyrir því og við, sömuleiðis í prýðilegri samvinnu við hv. formann nefndarinnar, gerðum okkar til þess að flýta afgreiðslu þess í félagsmálanefnd.

Það var eitt tiltekið mál sem ég gerði sterkar athugasemdir við við 1. umr. málsins og reyndar var undir það tekið af öllum þeim sem tóku til máls. Svo háttaði til að í frumgerð málsins var ekki gert ráð fyrir því að hægt væri að veita styrki til foreldra sem ættleiddu barn án atbeina Íslenskrar ættleiðingar. Í umræðunni var hins vegar sýnt fram á að dæmi væru um að börn væru ættleidd af foreldrum sem hefðu sérstök tengsl við lönd sem Íslensk ættleiðing hefur ekki formleg starfstengsl við. Það kom fram sú skoðun og vilji allra við skoðun málsins í félagsmálanefnd að væri málum svo háttað að dómsmálaráðuneytið hefði veitt forsamþykki fyrir ættleiðingum án þess að til hefði komið fyrirgreiðsla eða formlegur atbeini Íslenskrar ættleiðingar ættu foreldrar slíkra barna að njóta jafnræðis á við þá sem hefðu farið hinn hefðbundna farveg. Þetta er mjög í anda þess að hæstv. dómsmálaráðherra hefur með lofsverðum hætti sýnt mikla lipurð í slíkum tilvikum þar sem um er að ræða möguleika á ættleiðingum frá löndum sem ekki eru enn formleg tengsl við ættleiðingarstofnanir í.

Frá því er skemmst að segja að bæði starfsmenn félagsmálaráðuneytisins og ekki síst hv. formaður nefndarinnar, Dagný Jónsdóttir, gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að bjarga þessu máli, þ.e. að hér er lögð fram tillaga með stuðningi allra og að frumkvæði hv. formanns um að fella burt 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins og þar með tel ég einsýnt bæði að samkvæmt lögum og samkvæmt yfirlýstum skilningi allra flokka sé ljóst að foreldrar barna í þeim tilvikum þar sem ekki eru formleg ættleiðingartengsl á milli landa njóta nákvæmlega sömu ívilnana varðandi þennan styrk og þeir foreldrar sem ættleiða börn í gegnum Íslenska ættleiðingu. Ég er fullkomlega sáttur við það og minn flokkur og ég vil þakka hæstv. ráðherra og hv. formanni nefndarinnar fyrir góðan skilning á málinu og ég ítreka að stjórnarandstaðan hefur meira en staðið við sitt varðandi þetta mál.