133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[15:29]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Sumir hafa sagt að við eigum að stefna að einföldu Íslandi en hér erum við að afgreiða og ræða frumvarp til laga um ættleiðingarstyrki sem er nýr lagabálkur, nýtt í lagasafninu, nýjar bætur sem fólk þarf að vita af og kunna og læra þannig að ætíð flækist nú velferðarkerfið.

Eins og ég gat um í 1. umr. er ég á móti þessu og ég færði rök fyrir því að það fólk sem ættleiðir barn þarf yfirleitt ekki styrk og það yrði mjög undarlegt ef það þyrfti á því að halda, hafandi verið barnlaust í eitthvert árabil, jafnvel áratug.

Þessi styrkur er veittur án tillits til tekna eða eigna, frú forseti. Þetta er dálítið sérkennilegt velferðarkerfi þar sem jafnvel fólk með háar tekjur og miklar eignir getur fengið bætur frá ríkinu og í frumvarpinu kemur hvergi fram að það eigi að standa kostnaður á móti. Það gæti því verið að einhver gæti ættleitt í einhverju landi án kostnaðar eða með mjög litlum kostnaði en fengi bætur engu að síður.

Ég held að þegar fólk er að ættleiða barn, og þekki það reyndar af vissum ástæðum, þá sé gleðin og ánægjan við það að eignast slíkt barn miklu meiri en svo að einhver hálfrar milljón króna styrkur skipti einhverju máli. Allur kostnaðurinn sem menn eru að tala um við ættleiðingu barns er ekki nema hálft bílverð þannig að ég sé nú ekki hvað menn eru að ganga langt í því að búa til heilan lagabálk utan um ekki neitt og án þarfar. Það er sem sagt hvorki gert ráð fyrir því að hér sé gerð krafa um lágar tekjur né litlar eignir né að það sé einhver kostnaður. Ég er á móti þessu frumvarpi og mun greiða atkvæði gegn því.