133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[16:41]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég fagna því og framlagningu þess og lýsi stuðningi framsóknarmanna við þetta frumvarp. Það er merkur áfangi í lýðræðisþróun Íslendinga og stuðlar að jafnræði, gegnsæi og hófsemi í stjórnmálastarfi.

Ég þakka nefndarmönnum störf þeirra að þessu máli og ég þakka öðrum formönnum stjórnmálaflokkanna samstarfið um þetta mál og minnist þess að nú hefur náðst árangur af margra ára umræðum í starfi þeirrar nefndar sem þáverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson lét setja til þess að vinna þær tillögur sem nú eru komnar fram og samstaða hefur náðst um.

Ég tek undir margt það sem fram hefur komið í framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra og ræðum annarra hv. þingmanna við þessa umræðu. Við þurfum að sjálfsögðu að læra af reynslunni sem nú fæst fram undan og það eru einmitt endurskoðunarákvæði í frumvarpinu sem hníga að því að eftir nokkurn tíma verði það tekið til skoðunar í ljósi fenginnar reynslu.

Eitt af því sem þarf sérstaklega að hafa í huga er hvort nú fara að skapast hér svokölluð frjáls samtök utan stjórnmálaflokkanna sem fara að hafa afskipti af stjórnmálabaráttu, t.d. með auglýsingum, með margs konar kostun eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi áðan þar sem t.d. í Bandaríkjunum eru svokallaðar Political Action Committees orðnar mjög umsvifamiklar og hafa mikil áhrif í stjórnmálum, m.a. með svokölluðum neikvæðum auglýsingum. Ég tek undir það líka að það er æskilegt að flokkarnir haldi áfram samstarfi sínu og samtölum um hugsanlega möguleika á því að ná einhvers konar samkomulagi um auglýsingakostnað sem ég held að sé mjög mikilvægt að við reynum til þess að þetta frumvarp, þegar það er orðið að lögum, megi skila þjóðinni og lýðræðisþjóðfélagi okkar sem mestum árangri.

Ég endurtek þakkir til nefndarmanna og lýsi enn á ný stuðningi við þetta frumvarp.