133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:36]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var farið um víðan völl en við erum hér einungis að ræða um eitt frumvarp. Eftir ræðu hv. þingmanns mætti ætla að rafmagns- og orkumál á Íslandi væru gjörsamlega í rúst en það þarf nú varla að taka það fram að svo er ekki. Það er í fáum löndum sem orkuöryggi er jafnmikið og hér. Það er rangt sem hv. þingmaður er að gefa hér í skyn að orkuverð á Íslandi sé með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Það er akkúrat öfugt. Hér er orkuöryggi hvað mest og hér er orkuverð hvað lægst. Það er afrek því það eru ekki nema rétt 100 ár síðan fyrsta vatnsaflsvirkjunin var reist hér í Hamarskotslæk í Hafnarfirði og Íslendingar buðu virkjanamenn velkomna því að með þeim fylgdi rafmagnið, birtan og hlýjan og orkan sem hefur fært okkur þá auðlegð sem við búum við í dag.

Það er ekki sanngjarnt að bera orku saman, og þeim mun meira er einmitt afrekið að hafa náð þessum árangri í orkumálum vegna þess, og ég trúi því að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því hversu dreifbýlt Ísland er. Við getum þess vegna ekki borið okkur saman við t.d. Holland og Belgíu þar sem hver er nánast uppi á öðrum, svo þéttbýl eru þau lönd. Við höfum eigi að síður náð að koma orku með ótrúlegu öryggi til landsmanna og á lægsta verði sem þekkist.

Hér erum við hins vegar að ræða um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun og hv. þingmaður gefur það í skyn að hér séu enn ein einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir þá staðreynd að hér hefur því verið lýst yfir af hæstv. iðnaðarráðherra og öðrum sem að frumvarpinu standa að það sé ekkert slíkt á sjóndeildarhring. Ég minni hv. þingmann á að frumkvæðið að þeim samningi sem frumvarpið byggir á kemur frá R-listanum í Reykjavík sem óskaði eftir því að ríkið keypti hlut sinn úr Reykjavíkurborg og ætli hv. þingmaður hafi (Forseti hringir.) ekki eitthvað tengst R-listanum í Reykjavík?