133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[18:07]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem hv. iðnaðarnefnd leggur til að gerðar verði á þessu frumvarpi eru að mínu mati til verulegra bóta þar sem lagt er til að fella út ákvæði í 2. og 3. gr. frumvarpsins um fyrirmæli um að leggja eignarhluti ríkisins í orkubúinu annars vegar og í Rarik hins vegar inn í Landsvirkjun þannig að þau fyrirtæki yrðu dótturfyrirtæki Landsvirkjunar og að öllu leyti í eigu hennar og því í raun og veru eitt og hið sama. Efnahagsreikningur væri samstæður þannig að hér yrði í raun og veru um algera sameiningu að ræða nema að forminu til.

Ég gerði athugasemdir við þessi áform í þingsalnum fyrr í haust þannig að ég þarf ekki að endurtaka þau orð. Þess vegna fagna ég breytingunum að því leyti til að áformum um sameiningu þessara þriggja orkufyrirtækja í eigu ríkisins í eitt fyrirtæki er a.m.k. slegið á frest. Ég tel að hún sé óskynsamleg út frá þeim lögum sem við höfum sett um þennan markað sem á að grundvallast á samkeppni og að menn gangi gegn tilgangi laganna með sameiningu fyrirtækjanna.

Ég vil líka rifja það upp að þegar iðnaðarráðherra lagði fram frumvarp sitt um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins fyrir ári síðan, í nóvember á síðasta ári, var það einmitt rökstutt með því að nauðsynlegt væri fyrir Rafmagnsveitur ríkisins að vera hlutafélag til að geta átt í samkeppni við önnur orkufyrirtæki í landinu, ef Rafmagnsveitur ríkisins væru ekki hlutafélag mundi það fyrirtæki eiga erfitt uppdráttar í samkeppni við önnur orkufyrirtæki í landinu. Forsendan fyrir því að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag fyrir ári síðan var einmitt sú að samkeppni yrði á milli fyrirtækjanna. Það er því mikil kúvending ef menn ætla sér, ári eftir að hafa breytt Rarik í hlutafélag, að renna saman þessum þremur fyrirtækjum ríkisins í eitt.

Ég tek undir sjónarmið sem ég heyrði áðan hjá síðasta ræðumanni og ég hef haldið til haga á undanförnum árum. Ég hallast að því að ríkið nýti þessi fyrirtæki, bæði Rafmagnsveitur ríkisins og orkubúið, sem fyrirtæki til sóknar í þeim landshlutum sem fyrirtækin starfa, þannig að menn horfi ekki bara á þessi fyrirtæki í því skyni að framleiða rafmagn fyrir markaðinn á höfuðborgarsvæðinu heldur sem fyrirtæki sem hafi afl til að sækja fram í atvinnumálum, í atvinnusköpun á sínu starfssvæði, og menn eigi að huga að því að skipuleggja fyrirtækin út frá því sjónarmiði. Ég gæti séð fyrir mér að Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins að einhverju leyti yrðu sameinuð í eitt fyrirtæki á norðvesturhluta landsins sem væri mjög öflugt fyrirtæki sem gæti haft bolmagn til að ráðast í framkvæmdir til orkuframleiðslu og atvinnusköpunar á starfssvæði sínu. Þessi landshluti þarf á því að halda að menn hafi yfir að ráða fyrirtæki sem hefur eitthvert afl í því skyni að styrkja búsetu á því svæði. Jafnvel mætti hugsa sér að þessu fyrirtæki væri heimilt að leggja til fé í atvinnusköpun á öðrum sviðum en það beinlínis starfaði á, þannig að það mætti nýta hluta af eigin fé þess til að sækja fram í atvinnumálum á öðrum sviðum.

Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegi forseti, þannig að við framhald málsins, sem er að vísu óvisst á þessu stigi hvert verður, lægju a.m.k. fyrir þær hugmyndir sem ég hef í þessum efnum.

Ég vil að lokum velta fyrir mér einum anga af þessu máli, sem ég hygg að sé ákveðinn drifkraftur í þeirri stefnubreytingu stjórnvalda að renna þessum þremur fyrirtækjum saman í einn efnahagsreikning, og það er eiginfjárstaða Landsvirkjunar. Mér sýnist á þessu nokkuð augljóst að Kárahnjúkavirkjun sé það stórt verkefni fyrir Landsvirkjun að fyrirtækið geti ekki ráðist í að fjármagna það verkefni eingöngu með lántöku, að auka þurfi eigið fé Landsvirkjunar til að fyrirtækið ráði við þær skuldbindingar og þær framkvæmdir. Eigið fé orkubúsins og Rafmagnsveitna ríkisins er um 17 milljarðar kr. og það sem í raun og veru er verið að gera með þessu er að hækka eigið fé Landsvirkjunar um 17 milljarða kr. Það eru u.þ.b. 15% af framkvæmdakostnaði við Kárahnjúkavirkjun og því er ekkert óeðlilegt að menn telji að ekki sé hægt að ráðast í svo mikla framkvæmd upp á 100 milljarða kr. eða meira án þess að leggja fram eitthvert eigið fé. Að öðrum kosti verði skuldirnar það hátt hlutfall af efnahagsreikningi og vaxtakostnaðurinn hærri en samningarnir, tekjusamningarnir, geti með góðu móti risið undir. Þannig blasir málið við mér.

Ég vil benda á eitt mál sem getur líka haft áhrif á Landsvirkjun og er óútkljáð. Það eru kröfur landeigenda að þeim vatnsföllum sem mynda afl Kárahnjúkavirkjunar um greiðslur fyrir afnot af vatnsréttindunum. Þau mál eru fyrir dómstólum, ef ég veit rétt, og kröfur landeigenda eru þær að þessi vatnsréttindi verði metin á 60 milljarða kr. Af þeim mun ríkið eiga um helming þannig að aðrir landeigendur gera þá kröfu til þess að þessi réttindi þeirra séu metin á um 30 milljarða kr. og þeir fái greitt afgjald fyrir nýtingu á þessum réttindum sem nemur, ef ég hef tekið rétt eftir um daginn í lýsingu á kröfunum, um 15% af tekjum Kárahnjúkavirkjunar. Það væri fróðlegt að vita hvort samningarnir um sölu rafmagnsins frá Kárahnjúkavirkjun geri ráð fyrir því að Landsvirkjun þurfi að standa undir greiðslum af þessum toga. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það og ég verð að segja að mér finnst nokkur rök hníga að því að ekki sé gert ráð fyrir því. Ég spyr: Hvað gerist ef landeigendur vinna mál sitt og þeim verður dæmt afgjald, kannski ekki það sem þeir fara fram á en við skulum segja helminginn eða svo? Stendur Landsvirkjun undir því að borga það afgjald? Verður ríkisvaldið þá ekki að greiða þennan kostnað vegna þess að tekjur af sölu rafmagnsins standa ekki undir þessum útgjöldum? Ég held að að skýra verði þennan þátt málsins og ég hef grun um ekki sé gert ráð fyrir að Landsvirkjun geti staðið undir þeim útgjöldum sem kynnu að falla til í formi afgjalds fyrir vatnsréttindin. Þá fer málið að breytast dálítið og syrta í álinn fyrir þessa framkvæmd ef hún skilar ekki nægilegri afkomu til að geta staðið undir þeim útgjöldum. Því verður ekki mætt öðruvísi en ríkið leggi til fé til fyrirtækisins.

Ég held að þessi þáttur málsins, staða Kárahnjúkavirkjunar, sé mjög viðkvæmur í þessu máli og menn þurfi að fá betri skýringar á því hvernig þessi framkvæmd stendur í raun og veru fyrir Landsvirkjun. Við vitum að með þessu frumvarpi er verið að styrkja eigið fé Landsvirkjunar um 17 milljarða til þess að Landsvirkjun geti betur borið þennan kostnað eða þessa framkvæmd og við þurfum að vita: Þarf að styrkja eigið fé meira ef ekki er gert ráð fyrir að fyrirtækið þurfi að borga fyrir afnot af þessum vatnsréttindum?

Ég vildi að þetta kæmi fram í umræðunni þannig að um það yrði spurt. Vonandi fást einhver svör til að skýra þennan þátt málsins og ég vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra eða formaður iðnaðarnefndar geti varpað frekara ljósi á það mál.