133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

loftferðir.

389. mál
[21:23]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég flutti mál mitt án þess að vera með hinn skrifaða texta í skýringu við 10. grein. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Frumvarpið hefur að geyma tvö ný ákvæði. Í nýrri grein, 126. gr. b, er kveðið á um rétt fatlaðra eða hreyfihamlaðra til flutnings sem háður er þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. greinarinnar. Þegar eru í gildi reglur um hámarksfjölda fatlaðra eða hreyfihamlaðra um borð í loftförum, sbr. reglugerð um flutning hreyfiskerts fólks með stórum flugvélum, nr. 442/1979. Það nýmæli er lögfest að komi til þess að synja þurfi fötluðum eða hreyfihömluðum farþega um flutning vegna þess að flugöryggiskröfur mæla gegn því eða ef stærð loftfarsins eða dyr þess rúma ekki farþega skuli flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa gera viðhlítandi ráðstafanir til að stinga upp á öðrum viðunandi möguleika á flutningi. Samkvæmt framangreindri reglugerð Evrópusambandsins á farþegi rétt á að fá endurgreiddan farmiða eða að breyta flugleið á áfangastað komi til synjunar um flutning.“