133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[21:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þýðir nú lítið fyrir hv. þingmann að vera stúrin yfir þeim árangri sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi er að ná í málefnum aldraðra og þeim gríðarlegu kjarabótum sem meiri hlutinn er að færa til aldraðra og öryrkja.

Ég ítreka að um það var rætt í heilbrigðis- og trygginganefnd með hverjum hætti mætti taka á þeim áhrifum sem séreignarsparnaður og fjármagnstekjur hefðu á lífeyri til eldri borgara. Niðurstaðan varð ekki sú að ákveða að þessar tekjur hefðu engin áhrif, hún lá hins vegar í því sem talið var unnt að gera, m.a. með hliðsjón af fjárveitingum til Tryggingastofnunar, að fólki væri heimilt að dreifa áhrifum þessa (Gripið fram í.) í allt að tíu ár. (Gripið fram í.)

Það liggur fyrir og ég get svarað hv. þingmanni með því aftur, hæstv. forseti, að fjölgun lífeyrisþega á vegum Tryggingastofnunar ríkisins hefur ekki verið eins mikil og reiknað var með og þetta kom m.a. fram í máli Sigríðar Lillýjar Baldursdóttur á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar, þannig að þar hafa menn borð fyrir báru og það er því gert ráð fyrir því að þeir fjármunir sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hér á hinu háa Alþingi ætlar að nota til þessara hluta, 2,3 milljarðar, séu nægir til þess á næsta ári og síðan verður auðvitað tekið á því fyrir fjárlög áranna 2008–2010.