133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[23:06]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sannar ekki neitt, þetta sannar ekki neitt. Hv. þingmaður verður að finna orðum sínum betri stað en greinar í blöðum sem byggja á rannsóknum sem hafa verið dregnar í efa, rannsóknum Stefáns Ólafssonar þar sem hann ber saman tekjur yfir 10 ár og tekjubil við gjörbreyttar þjóðfélagsaðstæður.

Útlendingar eru núna að fylla neðsta tekjubilið. Námsmenn fylla neðsta tekjubilið sem þeir gerðu ekki fyrir 10 árum. Þetta er engan veginn sambærilegt. Og fjármagnstekjur voru ekki til fyrir 10 árum.

Það er ekki hægt að bera saman þjóðfélag sem hefur breyst svona geysilega mikið, bæði með útlendinga og námsmenn og það hafa orðið kerfisbreytingar í skattkerfinu. Þetta er ekki sambærilegt.

Ég bið hv. þingmann að sýna með einstöku dæmi, frú forseti, að t.d. kjör þeirra sem hafa grunnlífeyri hafi skerst eða kjör þeirra sem eru einstæðir og hafa engar tekjur eins og örorkulífeyrisþegar með 75% örorku.

Ég skora á hv. þingmann að sýna fram á að þær bætur hafi ekki hækkað umfram allt annað í þjóðfélaginu nema lægstu laun sem sem betur fer hefur tekist að hækka enn frekar. (Gripið fram í.)