133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[00:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að segja fáein orð og fyrst og fremst vil ég lýsa óánægju með það að í hv. samgöngunefnd skuli menn ekki hafa náð fram þeim upplýsingum sem menn kröfðust að fá í hendur um þau mál sem eru hér til umræðu. Það var farið yfir hversu það er í raun og veru undarlegt að við 1. umr. var t.d. ekki hægt að fá svar við því hvaða verkefni það væru sem ætti að greiða með hálfum milljarði sem er verið að færa núna á árið 2006 í Fjarskiptasjóð. Það var ekki hægt að fá útskýringar á því við 1. umr. málsins.

Hvaða verkefni er það sem er hægt að nýta núna, sem sagt komið fram undir miðjan desember og þegar Alþingi ákveður allt í einu að hálfur milljarður sé til reiðu, í hvað á að nota hann? Er kannski búið að nota hann? Hvað fékk nefndin að vita um þetta? Var ekki gengið í að fá botn í það mál? Það er eitthvað undarlegt við það ef menn eru svona óskaplega fljótir að eyða hálfum milljarði, en allt virðist benda til að það eigi að koma honum í lóg á þeim dögum sem eru fram að áramótum. Mér finnast þetta ekki vönduð vinnubrögð. Mér finnst það ekki boðlegt að ekki sé hægt að fá svar við því hér þegar á að klára málið í þinginu hvað eigi að gera við þessa peninga af því að það á að eyða þeim á þessu ári, það er verið að setja lög um það.

Síðan verð ég að segja það alveg eins og er að mér finnst sú áætlun sem er verið að breyta hérna ótrúverðug. Það áttu að vera vissir peningar í Arnkötludalinn og þar áttu að vera jöfn framlög, þ.e. 400 milljónir hvort ár. Nú er allt í einu helmingurinn af því sem átti að nota á árinu 2007 fluttur yfir á árið 2008. Það er ekki hægt að fá svar við því hvernig eigi að fara að þessu, hvort áætlanir hafi breyst. Á að gera miklu meira á árinu 2008 en á árinu 2007? Er það þá hægt, er hægt að ná þeim árangri sem þá er gert ráð fyrir?

Enn verr lítur dæmið út ef menn skoða Sundabrautina þar sem gert var ráð fyrir því að eyða einum og hálfum milljarði á því ári sem er að koma, árinu 2007. Það kann vel að vera og er ekkert ótrúlegt að það sé erfitt að eyða þeim peningum. En er þá endilega hægt að eyða 3,9 milljörðum á árinu 2008 í málið? Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Var farið yfir þetta í nefndinni? Hvers konar verkáætlun er hér á bak við?

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að verið sé að bjóða Alþingi upp á að setja hér lög um verkefni sem ekki eru með trúverðugar áætlanir á bak við. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þær ræður sem oft hafa verið haldnar hér um það hversu það er orðið niðurlægjandi og hefur verið árum saman, að taka þátt í umræðum um vegamál þegar ríkisstjórnin leikur sér að slíkum verkefnum fram og til baka og spilar á þau bara svona eftir eyranu, eftir því hvað kemur ríkisstjórnarflokkunum best þegar líður að kosningum. Þá er spýtt í, þá er farið að tala um hinar miklu framkvæmdir sem eru fram undan. (Gripið fram í: Ertu nokkuð á móti því?) Nei, það er nefnilega málið, auðvitað geta menn ekki verið á móti því. (Gripið fram í.) En auðvitað eru menn á móti svona vinnubrögðum, það er ekki upp á þetta bjóðandi.

Að vísu hefur farið fækkandi gömlu afrekaskránum sem hæstv. ráðherra hefur haft fyrir venju að halda á undan hverri einustu ræðu sinni, hann hefur byrjað á að segja hvað búið sé að vinna mikil afrek í vegamálum. Það er líklega farið að verða svolítið ankannalegt í hans eigin eyrum núna þegar hann er farinn að tala um stórátakið sem þurfi að fara í í vegamálunum, af því að menn hafa engan veginn haft undan þeim þörfum sem hafa verið að myndast.

Ég held að nú sé kominn tími til þess að menn fari að krefjast þess að komið verði fram af meiri virðingu við Alþingi hvað þessi mál varðar. Og af því að hér var kallað fram í og við erum að ræða um vegamál, og það á að ljúka þingi á morgun, þá höfum við ekki fengið að sjá vegáætlunina enn þá, hvers vegna er það? Vegna þess að hæstv. samgönguráðherra og ríkisstjórnarflokkarnir eru eitthvað að kokka vegáætlunina á bak við tjöldin, þeir eru ekki búnir að ná samkomulagi um hvað megi sjást í sölum Alþingis. Hvers lags vinnubrögð eru það? Þetta eru mikilvægustu verkefni á sviði samgöngumála, á sviði öryggis í samgöngumálum, á sviði byggðamála, í raun og veru eru vegamálin stærstu byggðamál allra tíma og þau fást ekki rædd í sölum Alþingis vegna þess að menn eru ekki mættir til vinnu sinnar. Þeir voru ekkert í fríi, en þeir mæta ekki með verkefnin sem þeir áttu að vinna hingað í sali Alþingis til þess að hægt sé að taka til við að vinna þau betur fram en gert hefur verið fram að þessu. Undirbúningurinn hefur sem sagt verið svo slæmur að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki þorað að sýna vegáætlunina í sölum Alþingis.

Hv. formaður samgöngunefndar — ég geri alla vega ráð fyrir því að hann hafi barist fyrir því að fá þetta plagg í hendurnar til að geta sett nefndina af stað í málið — stendur nú verkefnalaus með nefnd sína og Alþingi er að fara heim. Á sama tíma halda menn hér ræðu eftir ræðu um afrekin sem eigi að vinna í vegamálunum og sem sé búið að vinna í vegamálum og þörfina fyrir að vinna að verkefnum hér hvað varðar öryggi á vegum og annað slíkt. Það er ekki hægt að bjóða upp á svona vinnubrögð, það er nú bara sannleikurinn.

Ég vil segja þetta hér, hæstv. forseti, og það skulu vera lokaorð mín að svona mega menn ekki standa að hlutunum. Það verður að vera unnið að vegáætlun með þeim hætti að Alþingi fái tækifæri til þess að fást við hana í tíma. Það hefur verið nógur tími til þess að vinna í því máli á þessu hausti og það hafa verið mörg tilefni til að halda mönnum við efnið og fara yfir hvað sé nú mikilvægast að gera í vegamálum á Íslandi. Nei, nei, þá sitja menn á vegáætluninni úti í bæ.