133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[10:11]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hér eru ýmsir þingmenn í liði stjórnarinnar að svíkja þau loforð sem þeir gáfu öldruðum í aðdraganda prófkjara. Hér á þessum bekkjum sitja menn sem í prófkjörum lofuðu því að ganga miklu lengra. Þess vegna lagði Samfylkingin og stjórnarandstaðan fram tillögur, sem voru felldar áðan, um að þrefalda þá upphæð sem menn mega nú vinna sér inn án þess að greiðslur skerði. Þetta sýnir að það fólk sem lofaði öldruðum miklu rýmri atvinnutekjum er að svíkja það sem það sagði áður.

Við sitjum hjá við þetta vegna þess að hér er um að ræða réttarbót sem gengur ekki nándar nærri nógu langt og það liggur alveg ljóst fyrir að þeir, og sérstaklega þeir framsóknarmenn sem lofuðu fólki miklu meira, eru að svíkja núna. En þeir hafa núna síðbúið tækifæri til að snúa enn af vitlausri leið. Það er enn möguleiki við 3. umr. (Forseti hringir.) að taka undir tillögur Samfylkingarinnar.