133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[14:13]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru mjög athyglisverðar pælingar hjá hv. þingmanni. Í skattalögunum stendur í 7. gr. A, lið 1, að til skattskyldra tekna teljist hvers lags hlunnindi og fríðindi. Það er opið og ekkert orð um það meir.

Nú er það svo ef að sveitarfélag rekur leikskóla þá ræður það til sín starfsfólk og yfirleitt er kostnaðurinn 70% laun. Af þeim launum er greiddur skattur, það er rétt hjá hv. þingmanni, og sveitarfélagið fær meira að segja hluta af þeim skatti til baka með útsvarinu.

Ef menn næðu því marki að láta foreldra fá nánast fullan styrkinn, sem er um 60–70 þús. kr. á hvert barn á mánuði, þá gætum við farið að tala um að foreldrarnir væru komnir með laun, a.m.k. 70–80%. Eitthvað er kostnaður, matur, hiti og annað slíkt. Þá gætum við komist að þeirri niðurstöðu að stærsti hlutinn af þessum greiðslum ætti að vera skattskyldur ef við ætlum að vera mjög nákvæm.

Þetta er nákvæmlega sama umræðan og ég tók um umönnunarbæturnar í gærkvöldi þar sem ég ræddi um hvort þær eigi líka að vera skattfrjálsar. Ég spurði hve stór hluti af þeim væru laun og hve stór hluti væri kostnaður.

Ég held að þetta sé mjög þörf umræða og alveg sérstaklega ef það verður í auknum mæli að foreldrar verði látnir velja hvort þeir vilji vera heima t.d. yfir tveimur börnum og fá 150 þús. kr. á mánuði sem sveitarfélagið borgar með tveimur börnum. Þá er náttúrlega eðlilegt að þeir borgi tekjuskatt af því.