133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:06]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér eru greidd atkvæði um breytingartillögu sem lýtur að því að fella niður vörugjöld af öllum matvælum. Sterk rök hafa verið færð fyrir því að vörugjaldið sé tímaskekkja. Þetta er dýr skattur og gamaldags skattur, skattar og gjöld sem hafa uppsöfnunaráhrif og skila takmörkuðum árangri við neyslustýringu, sé það markmiðið.

Ég skora á þá sjálfstæðismenn sem hér eru í salnum, sem hafa talað fyrir því að fella eigi niður vörugjöld af matvælum, að sýna það í verki. Hér hafa þeir einstakt tækifæri til að slást í för með Samfylkingunni við að afnema úreltan og kostnaðarsaman skatt og færa landsmönnum kjarabætur.

Ég vil hins vegar taka fram að að sjálfsögðu ber okkur að stuðla að öflugum forvörnum þegar kemur að neyslu svokallaðra óhollra matvæla. En ég bendi á að þrátt fyrir einna hæstu álögur á gosdrykki sem til eru í heiminum er neysla á þeim hvergi meiri. Hugmyndin um neyslustýringu sem býr að baki vörugjöldunum (Forseti hringir.) gengur því ekki upp í raun og veru.