133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi verið fyrir þremur árum að Alþingi ákvað að setja Lýðheilsustöð á laggirnar, m.a. til þess að vera stjórnvöldum til ráðgjafar varðandi lýðheilsu. Hér erum við að fjalla nákvæmlega um slíkt efni.

Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið satt að aðeins þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vilji taka varnaðarorð þessarar stofnunar gild. Nú reynir á það í þessari atkvæðagreiðslu, en hér er um það að tefla að falla frá ákvörðun um að lækka virðisaukaskatt á gosdrykkjum og sykruðum drykkjum.

En ég vil endurtaka það sem ég sagði við umræðuna fyrr í dag að það er ekki bannað með lögum, sem betur fer, að breyta lögum. Ég hlustaði á varnaðarorð sem komu frá (Forseti hringir.) ýmsum stjórnarþingmönnum, læknum og hjúkrunarfræðingum sem tala af þekkingu um þessi mál og ég vona að Alþingi beri gæfu til að taka þessi mál til endurskoðunar.