133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:59]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er að mörgu að hyggja í því frumvarpi sem nú er til umræðu, ekki síður en í hinu sem rætt var fyrr í dag. Það fyrsta sem ég vildi vekja athygli á er að línuívilnunin er til viðbótar við ákvæði frumvarpsins. Frumvarpið ákveður 10. gr. gildandi laga og kveður á um byggðakvóta allt að 12 þúsund þorskígildi, en línuívilnunin er í 11. gr. gildandi laga sem ekki er lagt til að verði breytt og hún er 3.375 lestir af óslægðum þorski á hverju fiskveiðiári auk þess sem ráðherra hefur heimild til þess að ákvarða hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar. Til viðbótar 12 þúsund tonnunum og 3.375 lestunum er síðan ótilgreint magn í ýsu og þorski sem getur bæst við. Þetta samanlagt getum við sagt að séu varnaraðgerðirnar til þess að bregðast við áhrifum af framsalinu í kvótakerfinu. Þannig að til þess að ekki verði neinn misskilningur uppi um það þá er línuívilnunin sjálfstæð grein og er til viðbótar við þessi 12 þúsund.

Þá kannski að meginmálinu. Það að menn hafa talið nauðsynlegt að bregðast við áhrifum framsalsins segir auðvitað líka að það hefur verið niðurstaða Alþingis að framsalið sé ósanngjarnt, að framsalið sé í eðli sínu það áhrifamikið eins og það hefur verið, í raun og veru án nokkurra takmarkana, að það sé ósanngjarnt. Það hefur verið fallist á að það væri sanngjarnt að bregðast við því með þeim hætti sem ákveðið hefur verið hverju sinni í lögum.

Ég held að það sé mikilvægt að menn átti sig á því að það er hið almenna viðhorf að gildandi framsal sé ósanngjarnt þannig að við getum ekki haldið því fram að það sé afstaða Alþingis að framsalið sé gallalaust og óumdeilt. Þvert á móti, það er niðurstaða þingsins að framsalið sé gallað og ósanngjarnt og það sé bæði rétt og skylt fyrir Alþingi að bregðast við því. Þetta er mikilvægt að hafa sem útgangspunkt í umræðunni vegna þess að það segir okkur að vandinn sem menn eru að bregðast við er framsalið sjálft og þess vegna eiga menn að mínu viti kannski áður en farið verður lengra í að ákvarða um viðbrögðin við vandanum að ræða um vandann sjálfan, hvort ekki sé hægt að taka á honum, finna lagfæringar sem séu þess eðlis að þörfin fyrir sértækar aðgerðir til að bæta úr slæmum áhrifum framsalsins verði minni.

Ég held að menn eigi að skoða það. Ég held að fyrst að menn hafa komið sér saman um að framsalið sé ósanngjarnt, eins og það er samkvæmt lögunum, þá sé eðlilegt að skoða reglurnar sem gilda um framsalið sjálft, hinar almennu reglur, fremur en að skoða sértækar aðgerðir til að bregðast við hinum almennu reglum.

Ef við skoðum hvaða skorður eru á framsalinu þá er svarið mjög einfalt: Það eru engar skorður. Það má framselja allt aflamark á milli staða, milli útgerða hvenær sem er, hvert sem er og sama gildir um hlutdeildina. Það eru engar skorður um framsalið.

Þá segi ég, virðulegi forseti. Það er skynsamlegast að leita að lausnum í framsalsreglunum. Getur ekki verið rétt að menn setji skorður við því hversu mikið megi framselja og hvenær og hvert? Í þeim texta sem ráðherra leggur fyrir þingið um byggðakvótann kemur fram að gert er ráð fyrir því að í byggðakvótanum verði settar framsalsskorður, að sveitarstjórnir geti ákveðið að setja ákvæði um löndunarskyldu og vinnsluskyldu á fiskinum innan byggðarlagsins þar sem veiðiheimildirnar eru, þar sem þeim er ráðstafað.

Segir þetta okkur ekki dálítið, að ef menn telja rétt að bregðast við með því að setja kvaðir á þá sem fá þennan kvóta, að þeir verði að veiða hann frá þessum stað, þeir verði að landa honum á þessum stað og þeir verði að vinna hann á þessum stað? Segir það okkur ekki að við ættum að skoða hvort það sé ekki rétt að setja sambærilegar kvaðir sem almenna reglu inn í framsalið? Ég segi jú, virðulegi forseti, við eigum auðvitað að skoða það. Og nú vil ég ganga lengra og segja: Við eigum auðvitað að gera það.

Á sínum tíma komu þær tillögur fram hér í þingsölum að það mætti aldrei framselja út úr byggðarlagi nema einn þriðja af kvótanum sem útgerð réði yfir, tveir þriðju hlutar yrðu alltaf að vera vistaðir og þeim ráðstafað innan byggðarlagsins. Ef það hefði verið reglan þá hefði ekki orðið þessi mikli tilflutningur á milli staða eða við skulum segja öllu heldur þessi mikli ójafni tilflutningur milli staða, því að tilflutningurinn skiptir ekki máli ef hann er nokkurn veginn jafn í heildina tekið, þá er kannski engin ástæða til að vera að setja skorður við því. Vandinn hefur orðið vegna ójafns tilflutnings þar sem stærstur hluti kvótans hefur farið frá einstökum byggðarlögum en sáralítið komið í staðinn.

Ef menn hefðu sett slíka reglu á sínum tíma hefðum við ekki séð þau vandamál sem hafa orðið, eins og t.d. árið 1999 á Vestfjörðum þegar fiskveiðar drógust saman um einn fjórða, um heilan fjórðung á einu ári. Það er ekki lítill samdráttur á landsvæði þar sem fiskveiðar eru stærsta atvinnugreinin. Láti menn nú sér detta í hug áhrifin á atvinnulíf annars staðar, t.d. á Akureyri eða í Reykjavík, ef stærsta atvinnugreinin í þeim byggðarlögum mundi dragast saman um einn fjórða á heilu ári. Við sjáum auðvitað afleiðingarnar eins og á Vestfjörðum, fólksfækkunin á því svæði, bara á síðustu tólf árum, hefur verið 21%. Það er vegna þess að störfum hefur fækkað, það er ekki þannig að fólkið fari og svo komi störfin á eftir, heldur fara störfin og tekjurnar fyrst, svo fer fólkið. Þetta eru eiginlega bara hamfarir, virðulegi forseti, svona feiknarlegar breytingar í búsetu á heilu landsvæði. Ég held að ég geti leyft mér að fullyrða að menn finna ekki dæmi í nokkru landi í Evrópu á síðustu 50 árum um aðrar eins hreyfingar á fólki á jafnskömmum tíma, sem auðvitað segir það að þó að menn hafi viðurkennt að það þyrfti að bregðast við áhrifum framsalsins þá hefur það verið svo lítið, það hefur ekki náðst að spyrna við fótum betur en þetta.

Ég held því að við eigum að setja skorður inn í framsalið sem almenna reglu og því betur sem það er útfært því minni þörf er á sértækum úrræðum í formi byggðakvóta, af því að ég held að löggjöf sé betri ef hún er leyst sem mest með almennum reglum og sem minnst með sértækum reglum.

Í öðru lagi vil ég árétta að viðbrögðin, 12 þúsund þorskígildi, og það er alveg rétt hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, þetta hefur skipt máli. Það eru dæmi um staði þar sem byggðakvótinn hefur skipt máli, hann hefur styrkt atvinnulíf, þess vegna ber ekki að tala þannig um málið að þetta sé gagnslaust. Hins vegar er ekki hægt að draga fjöður yfir það að þetta er lítið, 12 þúsund þorskígildi eru ekki nema 3% af útgefnum fiskveiðiheimildum á hverju ári, sem eru svona um 400 þúsund þorskígildi. Þetta er því lítið sem hlutfall af heildinni og þetta er líka lítið sem hlutfall af framsalinu.

Ég er hér með töflu um framsal síðustu ára. Flutningur aflamarks, t.d. á síðustu þremur fiskveiðiárum, hefur í þorski verið frá 88 þúsundum til 94 þúsunda tonna. Milli óskyldra aðila, ef við tökum frá flutning á milli skipa í eigu skyldra aðila þá voru þetta á síðasta fiskveiðiári 60 þúsund tonn í þorski og 45 þúsund tonn í ýsu, 30 þúsund tonn í ufsa, 25 þúsund tonn í karfa, framsalið er því um 180 þúsund tonn milli óskyldra aðila. Ég veit ekki hvað það eru mörg þorskígildi, ég er ekki með tölur yfir það, ég mundi giska á svona 100 þúsund þorskígildi sem bara aflamarksflutningurinn varð á síðasta fiskveiðiári og 12 þúsund af 100 þúsund eru 12%.

Til viðbótar við það verðum við að bæta flutningum vegna aflahlutdeildar og hún er samkvæmt töflu sem ég er með yfir síðustu fimm fiskveiðiár í þorski um 20% á ári, um 20% af hlutdeildinni í þorski flyst á milli fiskiskipa. Ef við gefum okkur það — og þetta er bara forsenda sem ég gef mér, ég hef ekki upplýsingar til að meta hversu nálægt raunveruleikanum hún er — að helmingurinn af þessu sé á milli óskyldra aðila, þá eru það 10% og 10% í þorski eru 20 þúsund tonn á hverju ári sem flytjast á milli óskyldra aðila til viðbótar við þau 60 þúsund sem ég rakti áðan þannig að flutningurinn er kominn upp í 80 þúsund tonn bara í þorskinum einum og sér ef ég reyni að meta framsalið í aflamarkinu og hlutdeildinni saman.

Ef við leggjum saman, skoðum hvað framsalið er að gera mikið og hvað byggðakvótinn er stórt hlutfall af hreyfingunni þá er byggðakvótinn mjög lítið hlutfall af hreyfingunni. Þess vegna vegur hann eðlilega lítið á móti áhrifunum af breytingunni, það gefur augaleið að ef mikið er flutt til og lítið er sett inn til að bæta úr þá verða áhrifin auðvitað mikil.

Ef við viljum því gera betur en tölur sem hafa leitt af framsalinu um íbúaþróun og atvinnuumsvif í sjávarplássum landsins bera með sér þá verðum við annaðhvort að auka byggðakvótann verulega eða að setja inn í almennu framsalsreglurnar takmarkanir sem tryggja það að umsvifin, útgerðin, löndunin og vinnslan séu að vissu marki alltaf á ákveðnu atvinnusvæði og flytjist ekkert út fyrir það. Það útilokar ekki að það geti verið breytingar á eignarhaldi þannig að það geti verið eitt fyrirtæki sem eigi veiðiheimildirnar á mörgum stöðum en þau verða þá að reka starfsemina á þeim stöðum, a.m.k. að því marki sem mundi verða kveðið á um í þessum framsalsreglum.

Ég sé líka fyrir mér einn möguleika. Ef menn vilja ekki setja takmarkanir í framsalið, ef menn vilja ekki bæta við í byggðakvótanum þannig að hann geti betur spornað við fæti við áhrifum framsalsins, hann mætti líklega ekki vera undir 10–15% af útgefnum veiðiheimildum, þá þyrfti hann að vera í ráðstöfunum í formi byggðakvóta eða til þess að þetta væri eitthvert umtalsvert hlutfall af hreyfingunni á ári hverju. Ef menn vilja hvorugt gera þá held ég að það sé ekki önnur leið en að reyna að markaðsvæða þessi viðskipti með veiðiheimildirnar, láta ríkið annast útleiguna á þeim og taka inn tekjurnar og nota tekjurnar til atvinnuuppbyggingar í byggðarlögum landsins eftir útdeilingu sem tæki mið af umsvifum í sjávarútvegi á einhverju tilteknu árabili rétt eins og menn notuðu tiltekið árabil til að ákvarða upphafsúthlutun kvótans. Þá mundu peningar renna inn í plássin sem yrðu notaðir til atvinnumála, uppbyggingar annaðhvort í sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum til mótvægis við breytingar í sjávarútvegi.

Þetta held ég að séu í stórum dráttum þær leiðir sem menn geta farið og ég hallast að þeirri leiðinni sem er almennust, ég held að það sé besta leiðin og ég hallast að því að horfa frekar til takmarkana á framsali í almennum reglum en með sértækum aðgerðum. Auðvitað geta menn blandað þessu saman, sett að vissu marki takmarkanir á framsalið í almennum reglum og haft að auki úrræði í formi byggðakvóta til viðbótar og hlutföllin þarna á milli yrðu auðvitað að endurspeglast af því hversu miklar takmarkanir menn settu inn í almennu reglurnar, því minni takmarkanir í almennu reglunum þeim mun meiri þörf á stærri hlutdeild inn í sértæku úrræðin í formi byggðakvóta og á móti að því meiri takmarkanir sem menn setja á framsalið þá verður minni þörf á úrræðum eins og byggðakvóta. Ég held að menn ættu að setja þetta niður fyrir sér á þennan hátt í almennu löggjöfinni, virðulegi forseti.

Að lokum vil ég svo fjalla aðeins meira um það sem ég nefndi, þ.e. að framsal á heimildunum væri fyrst og fremst ráðstafað eftir einhverjum viðskiptalegum forsendum sem ríkið stæði fyrir og leigði út heimildir til lengri eða skemmri tíma og tæki inn tekjur af því. Það má líka hugsa sér að veiðiheimildunum yrði skipt þannig að ríkið hefði þær ekki allar undir höndum heldur hefðu einstök sveitarfélög, skulum við segja, sinn hlut af þeim sem þau gætu síðan leigt út og fénýtt. Við vitum hvernig við nýtum aðra auðlind, þ.e. landið, þar hafa menn viðurkennt afnotarétt þeirra sem hafa nýtt tiltekið land eða afrétt um árabil, að þeir eiga rétt til nýtingar umfram aðra sem ekki hafa nýtt það, þó að þeir eigi kannski ekki eignarrétt. Auðvitað á sama að gilda um fiskimið. Fiskimið undan ströndum landsins hafa verið nýtt í gegnum aldirnar af fólki sem býr þar við. Mér finnst eðlilegt og sanngjarnt að það myndi nokkurs konar nýtingarrétt með sambærilegum hætti og fólk til sveita sem hefur nýtt tiltekinn afrétt, það fólk á þar áfram tiltekinn rétt umfram aðra. Ég held að menn verði að fara að hugsa ráðstöfun auðlinda lands og sjávar út frá sömu meginreglunum og menn styðjast við t.d. varðandi land og orku.

Þá held ég að ég láti þetta duga, virðulegi forseti. Það má auðvitað segja margt fleira um þetta mál en ég hef kosið að tala almennt um málið en ekki um einstök útfærsluatriði í því. Það er gert ráð fyrir því í þingsköpum að þingmenn leitist við að fjalla um stóru drættina í svona málum við 1. umr. og taki síðan einstakar greinar frumvarpsins eða útfærsluatriði til umfjöllunar eftir þinglega meðferð þegar málið kemur til 2. umr.

Byggðakvóti er í eðli sínu ríkisstyrkur og það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar að þegar allt er dregið saman er þetta frumvarp um árlegan tveggja milljarða kr. ríkisstyrk.