133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:56]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mér finnst áhyggjuefni þegar hæstv. ráðherra kemur hér og misskilur allan málflutning stjórnarandstöðunnar sem var að vekja máls á því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallar eftir viðbrögðum okkar og við erum að útskýra það að við komumst ekki að til þess að skýra afstöðu okkar. En við höfum beðið um það í stjórnarandstöðunni að fá að ræða þetta mál. Ég hef sent m.a. tölvuskeyti til hæstv. forseta þingsins um að málið verði tekið á dagskrá og fróðlegt væri að heyra hvort stjórnarliðar hafa eitthvað á móti því. Þeir virðast nefnilega hafa á móti því. Þeir tala undir þessum lið þar sem stjórnarandstaðan kemst ekki að, það er það sem þeir gera, þeir forðast þetta.

Hvers vegna? Þeir hafa farið illa út úr umræðu síðustu daga, þeir hafa farið illa út úr því að réttlæta það ástand sem hér ríkir, að um 7% barna búi við fátækt. Fólki finnst þetta ástand vera ónauðsynlegt og fólk vill breyta þessu. En Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda þessu og meira að segja þegar verið er að setja reglur og lög, svo sem skattalög, þá hefur hann ítrekað neitað að upplýsa hvað skattbreytingarnar hafa haft í för með sér, hvaða breytingar það muni hafa á tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki hirt um að svara þeim spurningum sem hann hefur verið spurður hér hvað eftir annað, hann hefur neitað að svara þeim. Og ekki er að sjá að framsóknarmönnum sé annt um það hvort þær skattbreytingar hafi valdið aukinni tekjuskiptingu. (Gripið fram í.) Já, ég sé að hæstv. ráðherra létti.

Það er nefnilega svo að ágætur prófessor í Háskóla Íslands hefur komist að því að kannski hafa greidd laun ekki svo mjög breyst, heldur hefur ríkisstjórnin með breytingum á skattkerfinu valdið því að það sem eftir situr í vasa hvers og eins, því hefur verið misskipt, vegna þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fer alltaf dýpra og dýpra ofan í vasa þeirra með lágu launin (Gripið fram í: Lestu Hagstofuskýrsluna.) en alltaf minna og … (Gripið fram í.) Það eru einfaldlega staðreyndir.

(Forseti (RG): Það er mjög mikilvægt að þeir sem kveðja sér hljóðs um fundarstjórn forseta ræði fundarstjórn forseta og að aðrir þingmenn hafi hljóð í salnum.)

Frú forseti. Það er greinilegt að þeim er órótt, stjórnarliðum, [Hlátur í þingsal.] undir þessari ræðu og rétt að áminna þá, þannig að maður hafi nú orðið hér. En mér finnst rétt að geta þess að umræða þurfi að fara fram um þetta mikilvæga mál, þá misskiptingu sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur staðið fyrir vegna þess að greinilegt er að stofnanir sem eru undir stjórn hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) eru komnar hér með skýrslur til að rugla umræðuna [Hlátur í þingsal.] og mér finnst einfaldlega rétt að (Forseti hringir.) við ræðum það málefnalega, frú forseti.