133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:41]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að minna mig á þá tillögu. Ég man ekki betur en ég hafi fagnandi greitt atkvæði með henni. Ég hef, eins og hv. þingmaður, undrast það í umræðu síðustu daga hver afdrif þeirrar nefndar urðu.

En hv. þingmaður hefur heldur betur bent á að hæstv. samgönguráðherra fari ekki einu sinni eftir samþykktum Alþingis. Í hvaða flokki er þessi hæstv. samgönguráðherra? Jú, í sama flokki og hv. þingmaður. Það hefðu átt að vera hæg heimatökin að taka í lurginn á þeim ráðherra og reyna að knýja hann til þess, sem er hans æðsta skylda, þ.e. að fara að samþykktum Alþingis.

Þetta, frú forseti, kannski bendir á þá staðreynd sem ég hef stundum leyft mér að halda fram í kaffisalnum, en aldrei úr ræðustóli áður, að hugsanlega er það vitlaus maður sem er í embætti samgönguráðherra. Hugsanlega hefði átt að skipta á þeim tveimur og láta núverandi hæstv. ráðherra sjá um að stýra samgöngunefnd en hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, stýrimaður með meiru, hefði auðvitað átt að vera samgönguráðherra. Þá er líklegt að staðan væri kannski önnur en hún er núna. Það er jafnvel hugsanlegt að sá einbeitti vilji sem kom fram í þingsályktunartillögunni, sem samþykkt var frá þingmanninum á sínum tíma, hefði leitt til þess að áætlun hefði verið gerð og henni hrint í framkvæmd og þá gæti vel verið að Wilson Muuga lægi ekki núna að drabbast niður upp við kletta suðurstrandarinnar. Það er hugsanlegt.