133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

bókmenntasjóður.

513. mál
[16:34]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er um að ræða tvö frumvörp í einu. Annars vegar eru búnar til nýjar eða endurnýjaðar reglur um það sem nú heitir Bókasafnssjóður höfunda, með ábendingum aðallega frá Evrópu og nokkrum öðrum breytingum. Ég ætla ekki að ræða það frekar, við skoðum það í menntamálanefnd.

Hins vegar er um að ræða sameiningu þriggja smárra sjóða, Menningarsjóðs, Bókmenntakynningarsjóðs og þýðingarsjóðs, og um þetta allt saman eru höfð þau orð í 1. gr. frumvarpsins að markmið laganna sé „að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu og búa íslenskri bókmenningu hagstæð skilyrði.“ Það má segja um þessa grein að það er stórt orð Hákot.

Það er tillaga höfunda og útgefenda og hefur verið að sameina þessa þrjá örsjóði til þess að nýta betur fé og minnka umsýslu. Í tilkynningu sem kom frá menntamálaráðherra um daginn var talað um að í þeim sjóði mundu að lokum verða 50 milljónir. Ég var spurður um þetta, hvernig á þessu stæði, og ég fann ekki þessar 50 milljónir heldur fann ég aðeins 37,3 milljónir sem er 800 þús. kr. minna en sem núna rennur til þessara þriggja sjóða og þess liðar sem bætt er þar við. En með vandlegum lestri má auðvitað segja að hægt sé að finna þeim 50 milljónum stað, að vísu ekki á árinu 2007, því ári sem á að samþykkja frumvarpið og því ári sem núverandi ráðherra lifir á og hugsanlega ekki lengur sem ráðherra. Hér er sem sé setning í greinargerðinni, með leyfi forseta, sem er svona: „Til viðbótar ætti fjárlagaliður 02-983-1.11 Styrkir til útgáfumála, 14 millj. kr., einnig að renna í bókmenntasjóðinn.“ Ég endurtek í endursögn: Til viðbótar ætti þessi fjárlagaliður einnig að renna í bókmenntasjóðinn, hvernig sem liðir renna í sjóð.

Um þetta er það að segja að sá styrkur til útgáfumála eða þeir styrkir til útgáfumála sem þessu nema á árinu 2007 hafa þegar runnið til útgáfumála og var það verkefni fjárlaganefndar og menntamálanefndar í haust að dreifa til ýmissa útgáfumála. Ég veit ekki betur en þeir hafi allir farið til þeirra, a.m.k. fóru þeir úr menntamálanefnd þar sem ég sit, mjög vandlega til útgáfumála. Hér er um undarlegt orðalag að ræða sem er skrýtið að túlka og sérstaklega skrýtið að setja fram þannig að um 50 milljónir séu á ferðinni og láta að því liggja að sett hafi verið aukið fé til þessara mála, sem alls ekki er raunin, því það hefur verið minnkað. Hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lagði til með fjárlögunum að framlög til bókmenntastyrkja til að efla útgáfu á Íslandi yrðu minnkuð um u.þ.b. 800 þús. kr. eða næstum milljón ef maður tekur þennan lið með sem um var rætt.

Ætli það sé ekki skynsamlegt hjá höfundum og útgefendum að sameina þessa þrjá sjóði. Þeir eru smáir og með því að sameina þá kann að vera hægt að nýta betur það ört minnkandi fé sem látið er til þeirra renna og minnka umsýsluna eða umsýslukostnaðinn þar með. Hins vegar er áberandi að hér er öðruvísi að farið en með tónlistarsjóð, sem við urðum sammála um að stofna um daginn og er eitt af hreystiverkum menntamálaráðherra að hafa gengist fyrir, því hann var ekki einungis stofnaður á svipaðan hátt heldur strax bætt við hann fé og síðan í öðrum umgangi þannig að þeirri sjóðstofnun hefur verið vel tekið og líklegt er að sá sjóður efli tónlistarstarf á Íslandi og kynningu tónlistar erlendis.

Nú verður að taka fram, forseti, að eiginlegir styrkir fyrir útgáfumál og sérstaklega í ljósi þessara digru orða í 1. gr. frumvarpsins, eiginlegir styrkir til útgáfumála af opinberri hálfu eru sennilega hvergi lægri á Norðurlöndum en hér. Þar er auðvitað undanskilinn launasjóður rithöfunda og fræðihöfunda sem er staðið nokkuð þokkalega að, enda er það ekki styrkur til útgáfumála nema í mjög óbeinum skilningi. Það er full ástæða til að efla þennan stuðning á litlu málsvæði sem ætlar sér mikil afrek í framtíðinni eins og í fortíð, og ástæða til að fara yfir það, úr því að það er ekki gert í athugasemdum við frumvarpið, hverjir þessir óeiginlegu styrkir eru til útgáfumála, því að í öllum ráðuneytunum, um allt kerfið er í raun verið að styrkja ýmsa útgáfu. Við könnumst við það úr fjárlögunum að styrkt er útgáfa á iðnsögu og tónlistarsögu sem fellur beint undir menntamálaráðuneytið. Fornritafélagið fær frá forsætisráðuneytinu 14 eða 15 millj. kr. til að gefa út biskupasögur, sem þeir eru að gefa út núna. Þannig mætti telja áfram og er sjálfsagt að fá yfirlit um það í nefndinni. Það má minna á Gjöf Jóns Sigurðssonar og ýmsa aðra sjóði, hygg ég, sem eru á beinum vegum ríkisins. Þegar þetta allt er talið kynnu því að vera, sagði mér glöggur bókamaður, um 100–120 millj. kr. sem renna frá ríkisvaldinu til útgáfumála, ef farið er í gegnum ráðuneytin, þó einungis 37,3 milljónir eða 50 sé hér um að ræða.

Munurinn er sá að í þessu ráðuneytakerfi eru engar umsóknir, þar talar maður við mann. Þar hefur verið byggt upp eins konar opinbert bókaútgáfukerfi til hliðar við markaðinn, eins konar ríkisútgáfa og þetta þarf auðvitað að fara í gegnum. Ég tek fram að ég er ekki að lasta þau verkefni sem styrkt eru með þeim hætti. Ýmis þeirra eru alveg ágæt, önnur þyrfti kannski að fara að skoða. En ef verið er að samræma styrki til útgáfumála og ef meiningin er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu og búa íslenskum bókmenntum hagstæð skilyrði, eins og stendur í 1. gr., hefði verið metnaðarfyllra að geta um þennan þátt líka sem sennilega er, eins og þessi bókamaður sagði mér, jafnstór í peningum og sá sjóður sem hér er um að ræða.

Ég held að það sé rétt stefna í frumvarpinu, þó ekki sé gengið nema lítið skref, sú sama og er um tónlistarsjóð, að færa sjálfa úthlutun fjárins úr höndum ráðherra annars vegar og þingnefnda hins vegar yfir í faglegar stofnanir eins og hægt er, þar sem fagmenn meta það umfram stjórnmálamenn eða vini hvernig á að úthluta fénu og eftir hvaða stefnu það er gert.

Ég vil einnig segja að Alþingi þarf auðvitað að hafa svigrúm í sambandi við þennan fjárlagalið til að fylla upp í göt og koma í veg fyrir slys. Þess vegna er ekki rétt að taka alla þá styrki til útgáfumála, 14 millj. kr., sem hér er um að ræða og ætlast til að þeir renni í þennan sjóð og verður sennilega ekki að veruleika hvað sem ráðherra vill. Þá er ósagt og skal sagt hér að mörg einkennileg dæmi eru um fjárveitingar héðan frá Alþingi til bókaútgáfu. Sumar fjárveitingarnar eru á vegum einstakra ráðamanna á þingi eða í ríkisstjórn án þess að nokkur hafi komið þar nærri sem faglegt vit hefur á. Það er því ekki gott að halda slíku áfram en ef við komum okkur upp skilgreiningu á verksviði Alþingis í þessum málum og látum afgreiðsluna vera í menntamálanefnd en ekki í fjárlaganefnd, þar sem geðþóttaákvarðanir eru tíðar í þessum efnum, þá tel ég að rétt sé að halda þessu svigrúmi.

Um þetta frumvarp er það að segja, ef einhver væri hér til að hlusta, t.d. hæstv. menntamálaráðherra, að það er byggt á tillögum starfshóps menntamálaráðherra sem skipaður var árið 2005, stendur í frumvarpinu. Lykilþátturinn í þeirri setningu eru orðin „m.a.“ þ.e. „m.a. byggt á tillögum starfshóps menntamálaráðherra sem skipaður var árið 2005 til að gera tillögur um breytingar á skipulagi sjóða er styrkja bókmenntir og bókaútgáfu svo og kynningar“ — í fleirtölu af einhverjum ástæðum — „á íslenskum bókmenntum erlendis.“

Ekkert frekar er sagt af starfi nefndarinnar en það veður sem ég hef haft af því er að vissulega hafi verið talað um þessa sameiningu en talað hafi verið um mun meira fé í þennan sameiginlega sjóð. Talað hefur verið um að stjórn sjóðsins yrði einhvers konar ráð sem færi þá með eins konar ráðgjafarhlutverk en ekki bara sjóðstjórn sem úthlutar og ekki má kæra. Það er auðvitað klárt að gagnsæi þarf að vera við slíka úthlutun, það þurfa að vera einhverjar meginreglur sem úthlutað er eftir og þörf væri á því að úr því að sjóðstjórnin tekur yfir allt þetta svið og er valdamikil, þá móti hún einhvers konar stefnu sem menn geta séð að úthlutað er eftir.

Þar var líka, að því er mér skilst, talað um þá hugmynd sem nokkuð lengi hefur verið uppi að til verði einhvers konar bókmenntaskrifstofa, eða hvað á að kalla hana, sem taki við hlutverki bókmenntakynningarstofu, heiti hún það, og fengi aukið hlutverk sem opinber umsýslu- og samskiptaaðili, svo hrannað sé upp nútímamáli, um bókmenntir, útgáfu og höfunda. Það stendur sjálfsagt ekki á því að menntamálanefnd fái tillögur þessa starfshóps í heilu lagi vegna þess að þá getum við skoðað hvernig þær voru og hver munurinn er á þeim og frumvarpinu. Ég bið líka um að menntamálaráðherra skýri af hverju ekki er farið eftir þeim tillögum sem mér skilst að hafi komið frá nefndinni.

Ég vil segja að lokum eða á undan blálokum að það er frjálsleg lagaumgjörð um þennan sjóð í frumvarpinu núna, sumir mundu segja losaraleg. Það eru engar reglur sem eiga að fylgja frá Alþingi um sjóðinn, nema sú að nú má styrkja útgáfu á öðrum tungum en íslensku og ég verð að viðurkenna að ég er ekki algerlega sannfærður um þá reglu eða tilbúinn að hleypa henni í gegn án þess að hún verði skilgreind betur. Það er ekkert um íslensku í sjóðnum, ekkert er um það sem menn hafa rætt undanfarin ár, eftir að Menningarsjóðurinn gamli lagðist niður sem útgáfufyrirtæki, að ástæða sé til að stofna orðabókarsjóð eða íslenskusjóð til að styrkja sérstaklega útgáfu orðabóka og hjálpargagna um íslensku og íslensku í tengslum við önnur tungumál, við tvímálaorðabækur og hjálpargögn ýmis.

Það er klárt að slíkt verkefni hefur reynst ákaflega erfitt á íslenskum bókamarkaði, útgáfumarkaði. Einstök forlög ráða varla við þetta og um það eru erfið og sorgleg dæmi hvernig forlög hafa farið út úr stórvirkjum á þessu sviði. Og það er kannski ástæðan fyrir því að sums staðar verður maður var við eftirsjá eftir gamla Menningarsjóðnum sem ekki var búist við þegar hann var lagður niður.

Sjóðstjórn þarf að skapa jafnvægi og ákveðna festu í úthlutunum sínum en hún þarf líka að geta mótað starf sitt eftir kröfum tímans og almennri menningarstefnu í landinu, m.a. og kannski einkum þeirri sem ríkisstjórn á að móta á hverjum tíma og menntamálaráðherra fylgir fram, sem við höfum því miður ekki séð mikið af, a.m.k. ekki á blaði eða í skilgreiningum hingað til. Um þetta vantar allt í frumvarpið. Sjóðstjórnin ræður í rauninni sjálf meira og minna hvað hún gerir. Ég er ekki alveg reiðubúinn að fallast á það án þess að það sé skýrt fyrir mér hvers vegna það er haft svona.

Forseti. Sennilega er skynsamlegt að fella saman þessa þrjá örsjóði, sem er í raun og veru eina efnisatriðið í frumvarpinu fyrir utan bókasafnamálin. Hver þeirra er upp á 10 milljónir og þeir eru auðvitað of smáir til að halda þeim áfram.

Því miður virðist hafa verið kastað til höndum við þetta verk, kannski af því að nú þurfa ráðherrar að klára sín mál fyrir vorið og þurfa að hafa eitthvað til að geta sveiflað í átökunum fram undan. Ekki eru nýtt, hvorki með skipulagi né fjármagni, þau sóknarfæri sem liggja í endurskipulagningu af þessu tagi. Það kemur skýrast fram í fjármálunum eins og ég nefndi áðan, að tannfé nýja sjóðsins er lækkun heildarframlaga um 800 þús. kr.

Hér er á ferð í heildina heldur ómerkilegur málatilbúnaður um mál sem verðskuldar miklu vandaðri vinnu og miklu meiri reisn og metnað, en ég get lofað þingheimi því fyrir mitt leyti og míns flokks að frumvarpið verður athugað vandlega og ítarlega í menntamálanefnd.