133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

reiknilíkan heilbrigðisstofnana.

163. mál
[14:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið á nýliðnu ári sem heilbrigðisyfirvöld tilkynntu stjórnendum heilbrigðisstofnana að tekið yrði upp reiknilíkan fyrir þessar stofnanir. Það var ekki um það að ræða við gerð þessa reiknilíkans að samráð eða samvinna hefði verið höfð við þá sem koma að rekstri stofnananna heldur, að því er virðist, einhliða ákvörðun stjórnvalda eins og svo algengt er. Auðvitað er gott fyrir stjórnendur og eftirlitsaðila með rekstri heilbrigðisstofnana að vita hvað sé á bak við fjárheimildir hverju sinni og hvort raunverulegur vilji sé til staðar hjá stjórnvöldum að farið sé að lögum um heilbrigðisþjónustu eða réttindum sjúklinga og í reiknilíkani hlýtur að felast ákvörðun um hver eigi að sinna hvaða verkefni og hvar í heilbrigðisþjónustunni. Ég dreg hins vegar í efa að hægt sé að fella allar heilbrigðisstofnanir á sviði heilsugæslu á landinu undir eina gerð líkans án þess að þar sé um mismunandi breytur að ræða. Svæðin sem heilsugæslan starfar á eru afar misjöfn, til dæmis landfræðilega hvað varðar samgöngur, dreifingu íbúa og jafnvel aldurssamsetningu fólks á ákveðnum stöðum innan heilbrigðissvæða.

Annað atriði getur haft afgerandi áhrif í rekstri þessara stofnana en það eru sumarbústaðir og/eða frístundabyggðir. Það er afar misjafnt hversu fjölmenn frístundabyggð er á hverju svæði, allt frá því að þar séu hundruð einstaklinga til þess að þúsundir nýrra íbúa flytji tímabundið inn á heilsugæslusvæðið hverja helgi allt árið. Þessir frístundaíbúar á heilsugæslusvæðunum þurfa sitt öryggi í heilbrigðisþjónustu þó að þeir hafi ekki lögheimili á svæðinu og að sjálfsögðu er þeim ekki neitað um þjónustu þegar þörf er á þó að ekki sé gert ráð fyrir því í fjárframlögum til viðkomandi stofnunar að hún veiti þjónustuna. Það er nauðsynlegt að fyrir liggi heildarúttekt á fjölda íbúa frístundabyggða á hverju heilsugæslusvæði og að tekið sé tillit til þess þegar sett er upp reiknilíkan fyrir heilbrigðisstofnanir þessara svæða og annarra þátta sem geta haft afgerandi áhrif á rekstur þessara stofnana eins og samgangna, dreifingar íbúa og eins frítökurétts lækna, svo eitthvað sé nú nefnt.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvernig eru einstakir veigamiklir þættir sem hafa áhrif á rekstur heilbrigðisstofnana, t.d. fjölmennar frístundabyggðir í umdæmi þeirra, teknir inn í reiknilíkan stofnananna?

2. Hefur verið gerð úttekt á fólksfjölda í frístundabyggð á þjónustusvæði hverrar heilbrigðisstofnunar og hlutfalli þeirra í veittri þjónustu viðkomandi stofnunar?

3. Munu heilbrigðisstofnanir fá leiðrétt rekstrarframlög undangenginna 2–5 ára í samræmi við niðurstöður reiknilíkansins?