133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilbrigðisstofnun Suðurlands.

164. mál
[14:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hafa orðið tafir á verkinu. En ég heyri svona almennt talað að þær tafir hafi verið til góðs. Það var betra að tefja verkið og byggja þá einstaklingsrými og bæta hæð ofan á en að klára verkið eins og upphaflega var áætlað.

En þegar menn taka nýjar ákvarðanir í miðju verki kostar það auðvitað ákveðinn tíma að beina verkinu í þann farveg. Þetta kostaði nýjar teikningar og það þurfti að skoða alls kyns skilmála varðandi útboð og annað, hvað væri hægt að gera þegar verk er hafið, búið að taka útboði o.s.frv. Það er því frekar flókið að standa svona að verki.

En mér fannst það mikilvægt að fara í það að breyta verkinu til þess að bjóða upp á einstaklingsherbergi. Þetta er hús sem á að standa til langs tíma og nútíminn krefst þess að sem flestir verði í einstaklingsherbergi. Það er mikilvægt fram undan hjá heilbrigðisyfirvöldum og sveitarfélögum að endurnýja gömul rými sem eru mjög víða fjölbýli.

Varðandi hlutföll aldraðra á stofnunum er ljóst að hlutfall aldraðra á stofnunum á Íslandi er hærra en hlutfall aldraðra á stofnunum í nágrannaríkjunum. Það er eitthvað sem ég tel brýnt að allir hv. þingmenn hafi í huga, að við erum búin að byggja upp ágætlega af rýmum. Þó eru biðlistar og við ætlum að byggja meira. Við ætlum ekki að byggja mikið meira en ætlum samt að byggja aðeins meira.

Það sem þarf að gera er að auka heimahjúkrun. Það er til háborinnar skammar, ég ætla að leyfa mér að segja það í þessum ræðustól, það er til háborinnar skammar, að mínu mati, að yfir helmingur sveitarfélaga hefur dregið úr félagslegri heimaþjónustu til aldraðra. Það sýnir skýrsla Ríkisendurskoðunar sem kom út fyrir ekki löngu síðan. Mér finnst það til háborinnar skammar að sveitarfélögin hafi verið að draga úr þessu og tel að þau verði að standa (Forseti hringir.) sig betur svo við getum þjónað betur heima.