133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

rekstur heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

165. mál
[14:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Segja má að allar þessar fjórar fyrirspurnir sem hafa legið hérna síðan í október tengist. En það var þannig að fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, tók á sínum tíma þá ákvörðun að sameina allar heilsugæslustöðvar á Suðurlandi undir einn hatt, Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Segja má að sú ákvörðun hafi ekki verið tekin í samráði við starfsfólk heilsugæslustöðvanna eða sveitarstjórnir heldur tilkynnt að svona ætti þetta að vera.

Skoðanir heimamanna á þessu fyrirkomulagi voru skiptar. Til dæmis mótmælti bæjarstjórn sveitarfélagsins Ölfuss þessari ákvörðun harðlega og óskaði eftir að yfirtaka rekstur heilsugæslustöðvarinnar þar en þeirri beiðni þeirra var held ég aldrei svarað.

Eftir að þessi ákvörðun lá fyrir má segja að heimamenn ásamt stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hafi lagst á eitt um að vel tækist til og það hafi gengið eftir þó auðvitað sé starfið enn í þróun og einhverjir hnökrar enn til staðar.

Ég held að við sem fylgdust með þeirri sameiningu ásamt þeim sem stýra rekstrinum og starfa við Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi talið að þannig yrði gengið frá málum að ef um uppsafnaðan rekstrarhalla væri að ræða við sameininguna yrði hann leiðréttur og stofnunin hæfi ekki starfsemi með halla upp á 10 millj. kr.

Sú varð þó raunin og hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands þurft að glíma við hallarekstur vegna þessa frá upphafi. Sameining heilsugæslunnar á Suðurlandi mun örugglega skila sér í hagræðingu þegar til lengri tíma er litið, en hún kostar einnig sitt. Þó sumar þeirra heilsugæslustöðva sem sameinaðar voru væru reknar réttu megin við núllið var ekki svo með allar.

Í heildina var um hallarekstur að ræða sem nam um tugum milljóna króna. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur verið leiðréttur sá rekstrarhalli sem var til staðar þegar heilsugæslustöðvar á Suðurlandi voru sameinaðar í Heilbrigðisstofnun Suðurlands?

Hve mikill var rekstrarhallinn á núvirði? Ef hann var ekki bættur, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að það verði gert?