133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

nám langveikra ungmenna o.fl.

334. mál
[18:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrr í vetur vorum heimsóttum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vinnustaðinn Landspítala – háskólasjúkrahús. Starfsmenn vöktu athygli okkar á ýmsu því sem betur mætti fara í samskiptum heilbrigðisyfirvalda og stjórnenda starfsfólks LSH og réttindamálum sjúklinga. Þau mál falla yfirleitt ekki undir yfirstjórn menntamála en þannig er því þó farið með eitt mikilvægt mál sem snertir þjónustu við sjúklinga á heilbrigðisstofnunum.

Flest börn á grunnskólaaldri sem eiga við langvarandi erfiða sjúkdóma að stríða eða hafa slasast illa og þurfa að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum, og/eða endurhæfingarstofnunum, eiga rétt á kennslu á meðan á sjúkradvöl stendur. Grunnskólinn er á forræði sveitarfélaganna og samningar hafa verið gerðir við ákveðna skóla á grunnskólastigi og er kennslunni sinnt undir þeirra stjórn. Þannig er þetta með börn og unglinga á grunnskólaaldri sem dvelja á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, að reynt er að sinna kennslu þeirra.

Hið sama gildir ekki um ungmenni sem lokið hafa grunnskóla og eru að hefja eða hafa þegar hafið nám í framhaldsskóla þegar þau veikjast eða verða fyrir slysi og þurfa að dvelja langdvölum á sjúkrahúsi eða í endurhæfingu. Kennarar sem sinna grunnskólakennslu hafa eftir getu og tíma reynt að sinna þeim hópi en eftir því sem mér skilst eru engir samningar í gildi þar um. Rekstur framhaldsskólanna er á ábyrgð ríkisins og það er nauðsynlegt að tryggja að ungt fólk á framhaldsskólaaldri eigi möguleika á kennslu eða aðstoð við fjarnám ef dvalið er langan tíma á sjúkrahúsi eða endurhæfingarstofnun.

Þess eru dæmi að ungmenni hafi hætt skólagöngu vegna veikinda vegna þess að kennsla eða aðstoð við nám var ekki til staðar meðan á veikindum og/eða endurhæfingu stóð. Alvarleg veikindi, slys eða varanleg örorka setja mark sitt á þá sem hlut eiga að máli. Þeir eiga ekki orku eftir til að berjast fyrir réttindum sem í raun ættu að vera sjálfsögð. Oft er erfitt að hefja daglegt líf í samfélaginu eða í skóla eftir að veikindum lýkur.

Möguleikar til náms meðan á legu á sjúkrastofnun stendur er öflug endurhæfing og mikilvægt að framhaldsskólarnir hafi úrræði til að koma til móts við þá nemendur sem geta ekki sótt skóla tímabundið vegna slyss eða veikinda. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir skipulögðu framhaldsskólanámi inni á sjúkra- og/eða endurhæfingarstofnunum fyrir langveik ungmenni eða ungmenni sem þurfa af öðrum ástæðum, t.d. vegna slysa, að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum eða í endurhæfingu?