133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

skólavist erlendra barna.

446. mál
[18:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um skólavist erlendra barna. Hún er svohljóðandi:

1. Hafa yfirvöld kannað með einhverjum hætti hvort erlendir ríkisborgarar sem komið hafa hingað til dvalar um lengri tíma hyggist setjast hér að með fjölskyldum sínum?

2. Hefur verið reynt að kanna hve mörg börn erlendra foreldra munu þurfa skólavist næsta haust? Ef svo er, hve mörg erlend börn telja menntayfirvöld að þurfi skólavist?

Virðulegi forseti. Mig langar að fara í stuttu máli yfir hvaða hugsun liggur að baki þessum spurningum. Við könnumst öll við að í fyrra urðu nokkur vandræði, ekki mikil en samt nokkur, vegna þess að erlend skólabörn, börn af erlendum uppruna, gátu ekki fengið kennitölu og því voru vandkvæði á að þau gætu hafið skólavist síðasta haust þegar skólar voru að hefjast. Þetta gerðist úti á landi.

Við vitum að hingað til lands hafa komið margir erlendir borgarar. Við vitum líka, þegar við skoðum tölurnar, t.d. gögn frá Hagstofunni og hæstv. félagsmálaráðherra, að stór hluti, um það bil tveir þriðju af þeim sem hingað eru komnir eru karlmenn. Þetta eru karlmenn á besta aldri ef svo má segja. Þeir eiga væntanlega margir fjölskyldur í heimalöndum sínum. Ég hygg að margir þeirra a.m.k. íhugi, eftir að hafa verið hér í einhvern tíma, hvort ekki sé rétt að fjölskyldur þeirra komi hingað eftir þeim, eiginkonur og börn. Þar af leiðandi fór ég að velta þessu fyrir mér.

Þetta atvik sem varð í haust, varðandi börnin sem fengu ekki kennitölur, vakti mig til umhugsunar um þessi mál. Síðan, þegar ég fór að skoða tölur og gögn yfir þá sem voru komnir hingað, fór ég áfram að velta málinu fyrir mér. Ég tel mikilvægt að íslensk stjórnvöld reyni að kortleggja þetta eins mikið og hægt er. Að sjálfsögðu er það erfitt og á vissan hátt nokkur óvissa tengd þessu en ég tel mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld reyni a.m.k. að einhverju leyti að gera sér grein fyrir því, ekki bara ríkisstjórnin heldur einnig sveitarfélögin því sveitarfélögin hafa grunnskólann á sínu forræði og leikskólana einnig, hversu mörg börn mundu hugsanlega koma hingað til lands næsta sumar þannig að við getum þá undirbúið okkur og gert ráðstafanir. Að sjálfsögðu viljum við tryggja eftir fremsta megni, ég vona það a.m.k., að þessi börn fái almennilega menntun og aðra þjónustu og að við getum tryggt að vel verði haldið utan um þau. Ég held að það hljóti að vera markmið okkar allar, virðulegi forseti.