133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:04]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því í þessum ræðustól að vísa alfarið á bug sem röngum öllum staðhæfingum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um ætlun ríkisstjórnarinnar og stóriðjustefnu hennar. (Gripið fram í.) Við stöndum vel í loftslagsmálum, frú forseti, og hvergi er hærra hlutfall endurnýjanlegra orkulinda. Við stöndum vel að vígi gagnvart Kyoto-skuldbindingunni okkar og hér hefur margt gott verið gert í samræmi við stefnu stjórnvalda frá 2002.

Skýrsla IPCC brýnir okkur til dáða um að gera betur og við ætlum að gera betur. Ég mun kynna á næstunni stefnu í loftslagsmálum þar sem verður— og þetta tek ég fram, frú forseti, í tilefni af orðum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur — sérstaklega tekið á því hvernig við ætlum áfram að skipa okkur í framvarðarsveit í loftslagsmálum og hvernig við ætlum að axla ábyrgð okkar í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem hv. þm. Þuríður Backman lagði áherslu á áðan, að þetta er sameiginleg ábyrgð. Það þýðir að þetta er hnattrænn vandi. Það þýðir líka að stóriðja á Íslandi er ekki hluti af loftslagsvandanum. Stóriðja á Íslandi er hluti af lausninni vegna endurnýjanlegra orkugjafa okkar. Þingmenn mega ekki blanda saman óskyldum hlutum, andstöðu sinni við að auðlindir okkar séu nýttar til að framleiða rafmagn og stóriðju, við þann vanda sem er hnattrænn vegna þess að við erum hluti af lausninni, ekki hluti af vandanum.

Varðandi losunarfrumvarpið, sem mælt verður fyrir á þingi mjög fljótlega, er rétt að taka fram að því er ætlað að setja losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju takmörk fyrir tímabilið 2008–2012 þannig að þeir sem eru (Forseti hringir.) áhugamenn um byggingu og rekstur álvera geta reiknað með og vita þá með hverju þeir geta reiknað og með hverju þeir geta ekki reiknað í áformum sínum.