133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:14]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, það er mjög mikilvægt að hafa val. En það virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu einhvern veginn mjög á móti því, vilji alls ekki hafa val. Þeir hafa t.d. lagt niður nám í vissum greinum. Ég bendi hér á að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn lögðu m.a. niður fiskvinnsluskóla á Dalvík og í Hafnarfirði. Það má ekki vera menntun í þessum greinum hjá þessum flokkum.

Yfir helmingurinn af vöruútflutningi þjóðarinnar kemur einmitt úr sjávarútveginum en þessir flokkar hafa lagt niður menntun í þessum greinum. Á sama tíma hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séð ástæðu til að mennta lögfræðinga í fjórum skólum á landinu. Þetta er alveg stórundarlegt. Þeir sjá kannski að það eigi að vera val í þessum greinum en koma í veg fyrir nám í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það er vegna þess að umræðan um sjávarútvegsmál, kvótann, er erfið fyrir þessa flokka, þeir forðast hana og leggja meira að segja niður nám í þessum greinum og leggja af útvarpsþætti sem fjalla um þau mál hjá Ríkisútvarpinu. Auðlindin var lögð niður bara vegna þess að framsóknarmenn þoldu ekki umræðuna um sjávarútvegsmál, hvað þá sjálfstæðismenn. Það er átakanlegt.

Það er mikilvægt að hafa val, það er mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að bjóða upp á fjölbreytta menntun sem er í tengslum við atvinnugreinar landsmanna og stuðla að því að fólk sé menntað í tæknigreinum, bæði í sjávarútvegi og öðrum þáttum þjóðlífsins. Það skiptir öllu máli, frú forseti.