133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[18:37]
Hlusta

Katrín Fjeldsted (S) (andsvar):

Ég þakka fyrir þessa spurningu. Það eru aðallega Ástralía og Jamaíka þar sem báxít er unnið, eftir því sem ég best veit. Lýsingin sem ég gaf hér er fyrst og fremst bundin við eyjuna Jamaíku og ég var svo sem ekki með upplýsingar víðar að en tók þetta úr frásögn Guðfinns Jakobssonar sem birtist í Morgunblaðinu í fyrradag. Mér fannst þetta afskaplega áhugavert því að maður hafði hugsað um báxít og Ástralíu, jú, jú, og það verður að flytja súrál með skipum yfir hálfan hnöttinn til að vinna ál úr því á Íslandi en umhverfisspjöllin eru greinilega mikil.

Þegar talað er um að okkar orka sé svo hrein verðum við að líta á það að við erum bara dropi í hafið. Jafnvel þótt öll orka Íslands væri virkjuð mundi hún rétt nægja til að lýsa upp og kynda eina stórborg úti í heimi, ekki meira. Við þurfum því að vera vandfýsin og velja í hvað við ætlum að setja okkar orku. Hún er ekki endalaus, hún er dropi í hafið.