133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

málefni grunnskólakennara.

[12:06]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég undrast það áhugaleysi sem virðist ríkja hjá hæstv. ríkisstjórn í þessu alvarlega máli sem nú er að koma upp í menntakerfi landsins. Ég undrast það líka að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki hafa orðið var við það að í gær gengu hundruð kennara um götur Reykjavíkurborgar til að mótmæla þeirri kjarastefnu sem þeir hafa sætt.

Það liggur alveg ljóst fyrir að ef hæstv. ráðherra hefur ekki til þessa haft áhuga á að sinna þessu máli, eða ríkisstjórnin, að reyna að greiða fyrir því með aðkomu af einhverju tagi þó ekki væri nema bara með samráði og samtölum við kennara og þá sem eru aðilar að þessari deilu, þá er alla vega kominn tími til að ráðherra gefi sér tíma frá mikilvægum störfum í forsætisráðuneytinu til að kynna sér þetta. Ég segi þetta sérstaklega vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra virðist ekki hafa nokkurn áhuga á þessu máli. Óskað var eftir því að hún kæmi sem fagráðherra til að ræða við þingmenn í dag um þá stöðu sem nú er að koma upp en hún var önnum kafin. Hún átti að vera í einum af framhaldsskólum borgarinnar fram að hádegi en gaf til kynna gagnvart okkur þingmönnum sem vildum ræða þetta mál að því miður sæi hún sér ekki fært að koma fyrr en löngu síðar.

Þá er eðlilegt að það sé hæstv. forsætisráðherra sem svari fyrir ríkisstjórnina. Hann hefur komið hér og hann hefur skilað auðu og það ætlar þessi ríkisstjórn bersýnilega að gera. Hún skilar auðu í vor í þessum mikilvæga málaflokki og höfum við þó fengið að sjá það á síðustu árum hvert sinnuleysi hennar hefur leitt skólakerfið og hvað hún hefur kallað yfir menntunina í landinu með áhugaleysi sínu og með verkföllum á verkföllum ofan ár eftir ár.