133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

stuðningur Íslendinga við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna.

565. mál
[12:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórn Íslands lýsti yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og fylgisþjóða í Írak var það örugglega einn svartasti dagurinn í rúmlega 60 ára sögu íslenska lýðveldisins. Ég held að mjög margir ef ekki þorri landsmanna geti tekið undir það. Þess vegna voru það vægast sagt vonbrigði og ákaflega aumt svar hjá hæstv. forsætisráðherra að það liggi ekki fyrir að við mundum aldrei aftur endurtaka leikinn og gerast þátttakendur með beinum eða óbeinum hætti í innrásarstríði á hendur annarri þjóð. Það er alveg með ólíkindum að heyra þetta svar hjá hæstv. forsætisráðherra, að það geti vel verið að við mundum endurtaka leikinn og lýsa yfir stuðningi við innrás í Íran, Bandaríkjamenn hafa bara ekki óskað eftir því enn þá.

Að sjálfsögðu á það að liggja fyrir að við munum aldrei gera þetta aftur og þessi afdráttarlausu mistök muni aldrei endurtaka sig. Þess vegna er það líka furðulegt (Forseti hringir.) að heyra að enn sé stuðningurinn formlega í gildi.