133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

námstími til stúdentsprófs.

491. mál
[13:19]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég ítreka að það er samstarf í gangi við Kennarasambandið og milli Kennarasambandsins og menntamálaráðuneytisins og að sjálfsögðu mun ég veita þeim hópi tækifæri til að skila vinnu sinni. Við munum síðan byggja frumvörpin sem væntanlega liggja fyrir innan tíðar á þeirri vinnu sem liggur fyrir á grundvelli þess samstarfs.

Ég geri mér vonir um það, þótt ég geti ekki fullyrt að svo verði, en ég bind miklar vonir við að hægt verði að leggja a.m.k. fram til umsagnar og umræðu frumvörp er tengjast breytingum á öllum skólastigunum, leikskólastigi, grunnskólastigi og framhaldsskólastigi. Þá getum við tekið umræðu, vísað til umsagnar eins og oft er gert um viðamikil mál, það tekur nokkurn tíma, oft á tíðum nokkur þing að fara í gegnum slíka umræðu.

En mér finnst samt einkennandi þetta gullfiskaminni hv. fyrirspyrjanda og þess sem kom hér upp inn á milli, hv. þm. Marðar Árnasonar, sem birtist í því að þeir muna t.d. ekki lengur kosningaloforð Samfylkingarinnar, sem þeir tilheyra nú a.m.k. enn um sinn, því það er alveg ljóst að það er aðeins einn flokkur sem hefur beinlínis sagt að það eigi að stytta námstíma til stúdentsprófs. Það er Samfylkingin og það gerði hún í þingkosningunum 2003, sem allir eiga að þekkja sem hafa fylgst með kosningunum.

Hins vegar er alveg ljóst að við verðum að taka tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið á íslensku samfélagi. Við erum búin að lengja grunnskólann um tvö ár. Við erum búin að lengja framhaldsskólann um tæpt hálft ár. Við verðum taka tillit til krafna sem m.a. eru á alþjóðavettvangi, að íslenskt skólakerfi verði að vera samkeppnisfært við það besta. Við getum líka spurt okkur og það er ekki langt síðan hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hérna upp og sagði: Við eigum að taka okkur Finna til fyrirmyndar. Gott og vel. Á öllum skólastigum þá, vænti ég. Ég vil geta þess að Finnar verja drjúgum skemmri tíma til að öðlast stúdentspróf en við Íslendingar. Þeir taka um 8.800 kennslustundir meðan við Íslendingar notum um 10.700. Aðalatriðið er að skapa sveigjanleika í skólastarfi, veita einstaklingunum möguleika á því að fara hraðar í gegnum skólakerfið ef þeir kjósa svo en líka að nota aðrar þær námsleiðir sem hugsanlega kunna að leiða til lengri námstíma. Við verðum að taka tillit til þarfa einstaklinganna.