133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

kostnaður við dagskrárliði Ríkisútvarpsins.

500. mál
[13:29]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Hér nota menn stór orð, orð eins og pukur og hroki og fleira. Ég ætla líka að leyfa mér að nota nokkuð stór orð því hér er einfaldlega um að ræða vanþekkingu hv. þingmanna á eðli þess starfs sem Ríkisútvarpið innir af hendi. Við getum ekki lokað augunum fyrir því (Gripið fram í.) að það er greinilegt að við höfum jafnvel þurft að ræða Ríkisútvarpið enn lengur því þeir hafa ekki enn þá náð tilgangi þess að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag. Hluti af því er að Ríkisútvarpið vinnur og starfar á samkeppnisforsendum og þarf að sinna ákveðnum skyldum og það er alveg ljóst að á grundvelli laga, á grundvelli núgildandi laga hefur Ríkisútvarpið heimild til að segja: Við gefum ekki upp þessar upplýsingar á grundvelli viðskiptahagsmuna. Það er ljóst. Það er enginn að fara bak við lögin. Og að tala um pukur það er fyrir neðan allar hellur og fyrir neðan virðingu þingmanna að ræða þetta á þessum forsendum. Mér finnst þetta frekar lýsa vanþekkingu á þeirri starfsemi sem Ríkisútvarpið þarf að inna og sinna innan síns ramma. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Merði Árnasyni og það er gott að hann bendi á það góða mál sem við samþykktum hér um daginn, Ríkisútvarpið ohf., sem m.a. veitir þingmönnum heimild og aðgang að því að koma fram og bera fram spurningar á hluthafafundum en síðan er hitt hvort hægt verði að svara þeim á grundvelli viðskiptahagsmuna. Við treystum einfaldlega stjórnendum Ríkisútvarpsins til þess að taka á þeim málum og svara þeim spurningum sem fyrir þá verða lagðar á slíkum fundum. En upplýsingarnar eru ljósar. Aðgangur almennings að slíkum upplýsingum er ljós og ekki síst í gegnum hluthafafundi sem verða haldnir í fyrirtækinu þegar fram líða stundir.