133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aflagning dagabátakerfisins.

246. mál
[14:20]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um það þegar við lokuðum dagabátakerfinu. Dagabátarnir voru að veiða frá 2.000 og upp í 12.000 tonn á ári og þarna var mikil óvissa.

Þegar málið var tekið fyrir og afgreitt á Alþingi voru eingöngu fulltrúar Frjálslynda flokksins á móti þessu, stjórnarandstaðan sat hjá en stjórnarliðar samþykktu þetta.

Það er eðlilegt við svona breytingar að fækkun verði í bátum. Menn sameina minni útgerðir og kaupa sér stærri báta. Það sem hefur breyst er að hlutastörfum hefur fækkað og fleiri eru farnir að gera út á ársgrundvelli. Ég tel það mjög gott og ég tel þessa breytingu mjög góða fyrir fiskveiðistjórnarkerfið. Ég vil einnig minna á að þorri þeirra sem störfuðu í dagabátakerfinu voru hlynntir þessari breytingu.

Virðulegi forseti. Við erum ekki einungis að tala um hagræðingu þarna, það er að gerast í öllum atvinnugreinum að menn eru að hagræða og sameina fyrirtæki. Þetta er bara sú þróun sem er að gerast. (Gripið fram í: Er ekki minni afli?)