133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aflagning dagabátakerfisins.

246. mál
[14:23]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei gert lítið úr jákvæðum áhrifum af dagabátakerfinu meðan það var við lýði. Ég hef aldrei gert það. Mér var alveg ljóst að það skipti máli fyrir þær byggðir þar sem þessir bátar voru að koma og landa.

Það var hins vegar veikleiki þess máls fyrir margar byggðir að þarna var um að ræða mjög tímabundna atvinnustarfsemi og hún skilaði sér ekki nema að mjög takmörkuðu leyti inn í fiskvinnslu á þessum stöðum. Það var veikleiki málsins og ef við reynum að ræða þessi mál í ró og næði og af sanngirni held ég að við sjáum það.

Við fundum það og finnum það að í sjávarbyggðum okkar er vaxandi krafa um að sjávarútvegurinn sé rekinn þannig að menn geti gengið út frá því, helst allan ársins hring, að hafa störf og viðurværi af honum og þetta sé um leið sjávarútvegur eða fiskveiðar sem tryggi fiskvinnslunni hráefni allan ársins hring.

Það var auðvitað vandinn við dagakerfið að það var ekki að skila því. Það sem við höfum séð í þróuninni síðustu árin er að vaxandi línuútgerð og vaxandi áhersla á útgerð stærri línubáta hefur haft þau áhrif að það hefur skilað fiskvinnslunni stöðugu hráefni. Það hefur líka gert það að verkum að við sjáum núna báta þar sem aðbúnaðurinn og möguleikar manna sem stunda þessar veiðar eru miklu betri en verið hefur.

Ég er alveg sammála því, og ég ítreka það og það hefur margoft komið fram hjá mér eftir að ég varð sjávarútvegsráðherra, ég er alveg sömu skoðunar og ég hef verið, að það er alveg hægt að stjórna fiskveiðum með sóknartakmörkunum. En þá verða menn líka að vera tilbúnir að horfast í augu við það að setja þarf við ákveðnar aðstæður einhverjar hamlandi aðgerðir eða hamlandi þætti inn í fiskveiðistjórnina sem gerir það að verkum að við drögum úr þegar þannig hentar.

Það var nákvæmlega það sem okkur tókst ekki að gera. Ég held að sú þróun sem við höfum séð sé alveg klár. Handfæraaflinn hefur minnkað, netaaflinn hefur minnkað en línuaflinn hefur stóraukist. Þessi aukning á línuafla skiptir auðvitað máli á jákvæðan hátt fyrir þessar byggðir hringinn í kringum landið, m.a. þær byggðir sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni.