133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vetnisrannsóknir og eldsneyti.

557. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Fl):

Frú forseti. Nú á tímum mikilla umræðna um alvarlegt ástand í heiminum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda er ástæða til að horfa til framtíðar. Vetni er orkuberi eða auðlind sem ef til vill á eftir að verða mikill framtíðarmöguleiki til vistvænna samgangna. Í vetnisrannsóknum hefur Ísland haft ákveðið frumkvæði en almenningi finnst eins og þau mál gangi frekar hægt. Spurningin er þá: Hvers vegna? Eru einhverjar tæknilegar ástæður fyrir því? Ég velti sem sagt fyrir mér stöðunni um þessar mundir og hvaða stefnu hæstv. iðnaðarráðherra hafi í þessu máli.

Það eru líka aðrir möguleikar varðandi eldsneyti. Núna liggur fyrir að við munum væntanlega hætta að urða sorp og menn fari að tala um sorp og lífrænan úrgang sem verðmæti. Kannanir hafa sýnt að það er mögulegt að vinna verulegt magn dísilolíu úr lífrænu sorpi eftir svokallaðri Fisher-Troops aðferð, en það er aðferð sem hefur verið notuð til að framleiða dísilolíu úr kolum. Þessi dísilolía er mun hreinni en hefðbundin olía og t.d. má nefna að við bruna í bifreiðum fylgir henni ekkert sót.

Varðandi þessar hugleiðingar velti ég fyrir mér stöðunni í vetnisrannsóknum um þessar mundir og hvert stefni. Ég spyr því einfaldlega:

1. Hver er staða vetnisrannsókna á Íslandi?

2. Telur ráðherra mögulegt að vetni verði orkugjafi í farartækjum innan 20 ára? Ef svo er, hyggst ráðherra greiða fyrir nauðsynlegum rannsóknum og uppbyggingu innviða til að slíkt geti orðið að veruleika?

3. Hefur ráðuneytið kannað möguleika á að nýta lífrænan afskurð (plöntur, gras o.fl.) og sorp til eldsneytisframleiðslu? Ef svo er, hver var niðurstaðan? Ef þetta hefur ekki verið kannað, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að það verði gert?