133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

samgöngubætur á Vestfjörðum.

537. mál
[15:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. samgönguráðherra um það að svörin sem hann fór með rétt áðan sýna betur en margt annað við hvað er að etja í samgöngumálum á Vestfjörðum. Þar er land bæði vogskorið og fjöllótt þannig að dýrt er og erfitt að gera nútímalega vegi og Vestfirðingar hafa setið allt of lengi á hakanum og gera það enn þá. Við svo búið verður ekki unað. Ég er handviss um að ríkisstjórn sú sem Samfylkingin mun eiga sæti í eftir næstu kosningar mun taka á þessum málum af röggsemd.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að rík áhersla væri lögð á umbætur á Vestfjörðum. Ég verð að segja að mér sýnist ekki nóg gert. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og óska eftir því að hann fari mjög vel og gaumgæfilega yfir þessar hugmyndir með hópnum Vinum Vestfjarða því að ég tel að Vestfirðingar þurfi á allt öðru að halda en að vera ósammála um samgöngubætur.

Þeir þurfa að leggjast á eina sveif allir saman. Ef hæstv. ráðherra hefur sannfæringu fyrir því að sú leið sem hér er lögð til sé ekki sú rétta óska ég eftir því að hann færi rök fyrir máli sínu fyrir þeim hópi sem hefur sent okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis þetta erindi.