133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:41]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það ríkir fákeppni á bankamarkaði hér á landi. Markaðshlutdeild fjögurra stærstu bankanna er einna mest hér á landi af Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samnorræna könnun um stöðu á viðskiptabankamarkaði sem birt var í ágúst á síðasta ári segir eftirfarandi um stöðu bankanna, með leyfi forseta:

„Frá samkeppnissjónarmiði virðast afkomutölur í greininni benda til þess að bankar geti boðið neytendum verulega betri kjör og samt skilað hagnaði. Með öðrum orðum gæti aukin samkeppni banka komið neytendum til góða með betri þjónustu á lægra verði.“

Svipuð skoðun kom fram hjá Guðjóni Rúnarssyni, forstöðumanni Samtaka fjármálafyrirtækja, en nýverið var haft eftir honum að það sem skili sér mest í vasa hinna almennu neytenda sé aukinn fjöldi stórra og öflugra fjármálafyrirtækja og aukin samkeppni á þessum markaði.

Flestir Íslendingar eru stoltir af íslensku bönkunum og árangri þeirra hérlendis og erlendis. Jafnframt tel ég að flestir Íslendingar geti tekið undir þá skoðun að einkavæðing bankanna hafi verið mikið heillaspor fyrir samfélag okkar og þjónusta þeirra hafi tekið stórstígum framförum. Á örfáum árum hafa bankarnir breytt tapi í ofurhagnað og munu þeir í ár skila 28 milljörðum króna í tekjuskatti til ríkisins sem er mikið stökk frá 12 milljörðum króna á síðasta ári og um 88 milljónum króna á árinu 1999.

Hins vegar er engum blöðum um það að fletta að fólki blöskra sérstaklega há þjónustugjöld og himinháir dráttarvextir og yfirdráttarvextir sem bankarnir bjóða einstaklingum og fjölskyldum landsins, en þjónustugjöldin eru almennt hærri hér en í Evrópulöndum. Þrátt fyrir góða afkomu bankanna virðast viðskiptavinir ekki fá að njóta þess. Við hljótum að spyrja hvort bankastofnanir misnoti tryggð viðskiptavina og við hljótum að spyrja í hve miklum mæli þeir beita samkeppnishindrunum til að koma í veg fyrir að þeir breyti um banka.