133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:09]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að enginn skoðanaágreiningur sé á milli mín og hæstv. ráðherra um atvinnuuppbyggingu og eflingu atvinnulífs. Það er auðvitað alltaf meginmarkmið. Spurningin er hins vegar: Hvað gerum við á næstu árum? Passar þetta inn í okkar litla efnahagslíf, þau áform sem m.a. hæstv. forsætisráðherra hefur sagt frá í Silfri Egils um áframhaldandi uppbyggingu í Straumsvík og Helguvík, sennilega framkvæmd upp á eina 300 milljarða kr., eins og iðnaðarráðherra segir í svari til mín að eigi að vera búin 2010, ásamt stórátaki í samgöngumálum? Nei, það passar ekki saman, virðulegi forseti. Ég vil velja stórátak í samgöngumálum.

Aðeins svo að því sem hæstv. ráðherra sagði um Akureyrarflugvöll. Mér kemur mjög á óvart það sem hæstv. ráðherra sagði, að hann hafi ekki frétt af þeim áformum að til standi að fara að fljúga beint frá Akureyri til Evrópu með fisk, 15 tonn í hverri ferð og jafnvel daglega, ferskan fisk, í staðinn fyrir að keyra hann í gámum hingað suður til Keflavíkur. Mér kemur það mjög á óvart ef hæstv. ráðherra hefur ekki frétt af því. Vel kann að vera að það hafi ekki verið tilkynnt formlega. Ég skal beita mér fyrir því, virðulegi forseti, að bréf frá þeim aðilum komi ekki seinna en í fyrramálið til hæstv. ráðherra ef það eitt vantar. Má ég þá spyrja, virðulegi forseti: Vill hæstv. ráðherra styðja okkur í því að flýta þeirri lengingu ef bréfið kemur um fyrirhugaðan fiskútflutning og þann mikla metnað sem fylgir þeim áformum fiskvinnslufyrirtækis og fjárfestingarfélags norður á Akureyri? Þetta eru ekki sögusagnir sem eru í gangi. Ég hef ekki fengið neitt bréf um það, mér hefur verið sagt frá því og ég hef lesið um það í fréttum.

Það atriði sem ég nefndi áðan, að ef flugvélin þarf að taka sig upp á Akureyri, fulllestuð af fiski til að nýta hagkvæmni ferðarinnar, en getur ekki haft fullt eldsneyti og þurfi að fljúga og lenda í Keflavík til að taka eldsneyti til að fljúga út, er auðvitað ekkert annað en samkeppnishindrun. (Forseti hringir.) Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér í því?